Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Til skoðunar að hefja gjaldtöku á bílastæðum á Akureyri

27.02.2020 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Skipulagsyfirvöld á Akureyri taka jákvætt í þá hugmynd að byrja á ný að rukka þá sem leggja bílum sínum í miðbænum. Í tæp 15 ár hafa bílastæðaklukkur verið notaðar í stað gjaldtöku.

Þetta var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs í gær og lagt fram til umræðu minnisblað bifreiðastæðasjóðs um gjaldtöku í miðbæ Akureyrar.

Verið í skoðun frá því í haust

Skipulagsráð tók jákvætt í þessar hugmyndir og hefur falið sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna áfram að málinu og gera tillögu um hvernig innleiða skuli nýtt skipulag. Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, segir í viðtali við Vikudag að þetta hafi verið í skoðun frá því í haust og nú sé verið að meta kosti og galla gjaldskyldu. 

Ferðamenn skilji klukkukerfið misvel

Nokkrar ástæður liggi að baki því að bærinn íhugi að breyta úr klukkustæðum yfir í gjaldskyldu. „Erlendir ferðamenn koma t.d. meira til bæjarins nú en áður og við höfum heyrt að þeir skilji misjafnlega vel þetta klukkukerfi sem við höfum.“ Þá hafi markmiðið með því að fólk leggi í klukkustæði í skamman tíma ekki tekist sem skyldi. Bíleigendur fari einfaldlega og breyti klukkunum ítrekað.

Ekki verið ákveðið

„Núna er í rauninni verið að endurskoða þá ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að hafa klukkukerfi en ekki gjaldskyldu. En það liggur engin ákvörðun fyrir ennþá,“ segir Pétur Ingi.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV