Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Til marks um hve hættulegt svæðið er

24.01.2015 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamennirnir sem fóru inn að Holuhrauni þurftu að færa sig frá gosstöðvunum vegna kolmonoxíðmengunar. Engar gasgrímur eru til við slíkri mengun. Sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir þetta dæmi um hve hættulegt svæðið er.

Baldur Bergsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að vísindamenn sem fóru inn að Holuhrauni í vikunni hafi einu sinni þurft að víkja frá gasstöðvunum vegna kolmónoxíðmengunar en engar gasgrímur duga við henni. Fjórtán vísindamenn fóru að gosstöðvunum í vikunni í fyrsta sinn í sex vikur.

Fjórtán íslenskir og erlendir vísindamenn fóru inn að eldstöðvunum á þriðjudaginn og komu til baka í gær. Mjög mikil mengun var við eldstöðvarnar. Brennisteinsdíoxíð mældist vel yfir heilsumörkum og þurftu vísindamennirnir að vera með gasgrímur. Baldur hefur sett upp alla gasmæla á svæðinu og sér um þá. Hann er núna á leiðinni til Reykjavíkur.

„Við lentum einu sinni í því þegar við vorum niðurfrá,  niður á gosstöðvunum á miðvikudagsmorguninn, að þá fór viðvörunarkerfi við kolmónoxíðmengun í gang. Þá þurftum við að keyra í burtu - það eru ekki til neinar gasgrímur við kolmónoxíði - þannig að við þurftum bara að keyra í burtu,“ segir Baldur en kveður þá ekki hafi verið í hættu. Þeir hafi ákveðið að rýma svæðið strax. Eina sem dugir við kolmónoxiðmengun er að vera með súrefniskút. „Þetta lýsir hversu hættulegt þetta svæði er, þetta er gas sem að maður finnur ekki lyktina af og þú verður ekkert var við þetta, og þess vegna það eina sem þú getur gert er bara að vera með mæli sem vaktar þetta og fylgjast með mælinum.“

Vísindamennirnir söfnuðu gögnum sem unnið verður úr á næstunni. Farið verður aftur að gosstöðvunum eftir viku. „Gosið sjálft er orðið allt annað, það er svo mikið hraun komið á staðinn og gígbarmarnir í kringum Baug eru orðnir býsna stórir þannig að maður sér ekki ofaní. Maður sér ekkert hraunið frá jörðinni lengur, maður sér ekki rennandi hraun á sama hátt og maður gerði í byrjun.“