Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Til í að endurskoða sölu upprunaábyrgða Landsvirkjunar

20.02.2020 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að Landsvirkjun sé ekki skyldug til að selja upprunaábyrgðir raforku og skoða megi hvort fyrirtækið eigi að hætta því. Sala upprunaábyrgða sé umdeild og almenningur henni mótfallinn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að upprunaábyrgðir væru mjög umdeildar og að hún fyndi fyrir því að almenningur væri ekki hrifinn af því fyrirkomulagi sem hafi verið hér við lýði frá 2008. 

Hún sagði að það væri ekki rétt sem haldið hafi verið fram að þetta kerfi eigi ekki við því við séum ekki tengd sameiginlega raforkukerfi Evrópu. Sala upprunaábyrgða þjóni vissulega meginmarkmiðum þessa kerfis.

„Sem er í grundvallaratriðum að gera framleiðslu á endurnýjanlegri orku fýsilegri frá sjónarhóli orkuframleiðenda en hún væri annars,“ segir hún.

Landsvirkjun, sem er stærsti raforkuframleiðandi landsins, seldi upprunaábyrgðir fyrir 900 milljónir í fyrra. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um upprunaábyrgðir í þætti sínum á þriðjudaginn. Þórdís Kolbrún segir að það megi skoða hvort Landsvirkjun eigi að hætta sölunni.

„Það er eitt af því sem hægt er að skoða er hvort það eigi að birtast í eigendastefnu þess fyrirtækis afstaða eigandans á því hvort og að hve miklu leyti eigi að selja upprunaábyrgðir,“ segir hún. „Það er skylda að þetta kerfi sé til staðar, skyldan er ekki að það eigi að gefa upprunaábyrgðir út. Þetta hefur verið rætt nokkrum sinnum og þessi umræða er uppi núna og ég er bara mjög opin fyrir því að taka þátt í slíkri umræðu og taka það áfram,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir