Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Þýskaland: Nornir fá uppreisn æru

17.12.2011 - 05:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Hartmut Hegeler, lúterskur prestur á eftirlaunum, og fjörutíu félagar hans, berjast fyrir því að þýskar nornir fái uppreisn æru, séu formlega sýknaðar. Der Spiegel segir frá þessu.

Um 25 þúsund grunaðar galdrakindur, aðallega konur, stúlkur og telpur, voru pyntaðar og brenndar á báli fyrir fordæðuskap og þjónustu við djöfulinn á svæðinu sem nú heitir Þýskaland. Sakborningum var kennt um allt milli himins og heljar. Þeir áttu að hafa valdið dauðsföllum, sjúkdómum, uppskerubresti, ófrjósemi og misheppnaðri bjórbruggun svo sitthvað sé talið.

Galdraofsóknirnar hófust um 1500 og lauk ekki að fullu fyrr en 1782. Alls voru um 60 þúsund ætlaðar nornir líflátnar í Evrópu í galdrafárinu mikla, 40 prósent á þýska svæðinu, bæði þar sem lúterskir menn drottnuðu og katólskir. Obbinn af hinum grunuðu var dreginn fyrir borgar-og bæjardómstóla og dæmdur af þeim.

Því hafa Hegeler og félagar snúið sér til borgarstjórna með óskir sínar. Yfirleitt er þeim vel tekið. Átta borgarstjórnir hafa veitt dæmdum og brenndum nornum uppreisn æru, þar af fimm í ár. En Hegeler er ekki tekið jafn vel allsstaðar. Þannig var hann virtur að vettugi í Budingen. Hann telur skýringuna þá að aðalsættin sem átti frumkvæði að galdraofsóknum í borginni sé enn áhrifamikil þar.