Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þyrfti að tvöfalda fjárframlag í 2,8 milljarða

21.11.2017 - 19:24
Mynd: RÚV / RÚV
Tvöfalda þarf fjárframlag ríkisins til heimaþjónustu í Reykjavík, segir skrifstofustjóri velferðarsviðs borgarinnar. Núverandi framlag er 1,4 milljarðar króna en þyrftu að vera 2,8 milljarðar. Starfandi landlæknir segir það ekki leysa vanda eldra fólks að byggja fleiri hjúkrunarheimili. 

Hundrað og ellefu liggja inni á Landspítalanum og bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili. Rúmlega fimmtíu manns liggja á endurhæfingadeild eða í bráðalegurými á Landspítalanum.

„Þetta náttúrulega þýðir að við getum ekki tekið á móti þeim sem þurfa að koma, sem flestir eru aldraðir,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Sigríður hélt erindi á Afmælisráðstefnu Hrafnistu og Sjómannadagsráðs í morgun. 

Í fyrra dó fjórði hver eldri borgari sem beið á spítalanum.

Leifur Bárðarson, starfandi landlæknir. Hvað finnst honum um stöðuna. „Hún er náttúrulega auðvitað mikið áhyggjuefni. Við höfum alltaf notað sömu aðferðina og hún er einfaldlega sú að byggja hjúkrunarheimili og byggja hjúkrunarheimili. Í dag eru hlutfallslega fleiri hjúkrunarrými á Íslandi heldur en á nokkru hinna Norðurlandanna. Þegar við erum búin að eyða peningum í að byggja hjúkrunarheimilin, þá stöndum við í þeim vanda sem við stöndum í, í dag að við getum ekki mannað þau,“ segir Leifur.

Hann vill að heimaþjónusta verði efld. „Það er hægt að gera það á morgun. Hjúkrunarheimili kemst ekki í gagnið fyrr en eftir fimm ár og það gagnast ekki þeim 111 sem bíða á Landspítalanum í dag,“ segir Leifur.

„Við þyrftum að geta aukið við almenna heimahjúkrun. Við þurfum líka fjármagn til þess að fara í meiri sérhæfingu,“ segir Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Núna fær Reykjavíkurborg einn komma fjóra milljarða króna frá ríkinu. „Ég held að það megi alveg tvöfalda þá upphæð sem við erum að fá inn í samninginn frá ríkinu,“ segir Berglind.