Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þyngri refsingar í vændismálum engum til gagns

07.03.2019 - 20:50
Mynd:  / 
Fáir hafa verið sakfelldir fyrir kaup á vændi hér á landi. Þeir fáu dómar sem hafa fallið eru sjaldan birtir og nöfn brotamannanna eru ekki birt. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, telur að nafnbirting í slíkum málum gæti haft fælingarmátt og unnið gegn vændi. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segist hvorki hrifinn af nafnbirtingum né því að auka refsingar. „Ef þú ætlar að þyngja refsingarnar þá muntu gera þennan heim harðari og ofbeldisfyllri," sagði Brynjar í Kastljósi.

Árið 2009 var ákveðið að fara svokallaða sænska leið í löggjöf um vændi, sem byggist á því að sala á vændi er leyfð en kaupin eru gerð ólögleg. Í greinargerð með lögunum var vændi skilgreint sem ofbeldi. Lögreglan viðurkennir að hafa ekki haft þessi mál í forgangi og það skýrir hvers vegna fáir hafa verið sakfelldir fyrir kaup á vændi hér á landi. Þeir fáu dómar sem hafa fallið eru sjaldnast birtir og nöfn brotamannanna eru ekki birt. Því vilja sumir breyta, enda geti það haft mikinn fælingarmátt í för með sér og dregið úr vændi.

Brynjar og Bjarkey voru gestir Kastljóssins í kvöld.

Bjarkey telur að birting dóma og nafna geti haft mikinn fælingarmátt. „Það er greinilega ekki að skila nógu miklum árangri að hafa þetta með þessum hætti eins og þetta er núna. En lögreglan hefur kannski ekki sett þetta í nægilega góðan farveg. Eitthvað þurfum við að gera til að reyna að uppræta þessa meinsemd í okkar samfélagi."

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Bjarkey benti á að komið hafi 238 mál tengd vændi á borð lögreglunnar á árunum 2007 til 2018. „Og það var ekki greidd sekt nema í 73 af þessum málum. Við þurfum með einhverju móti að uppræta þetta úr samfélaginu. Mér finnst ekki að neinn eigi að þurfa að hafa þetta sem framfærslu."

Brynjar sagðist ekki hrifinn af nafnbirtingum yfir höfuð. „Og ég er ekkert hrifinn af því að það sé verið að auka refsingar meira en gert er ráð fyrir í ákvæðinu sjálfu sem brotið er gegn." Hann benti á að nafnbirtingar varði fleiri en brotamenn, einnig fjölskyldur þeirra og börn. Þá sé nafnleyndin ekki til að vernda gerandann heldur þolandann.

„Í fyrsta lagi tel ég enga ástæðu til að hafa þetta refsivert, en það er önnur umræða," sagði Brynjar jafnframt. „Ég held að það sé engum til gagns, hvorki brotaþolanum eða gerandanum eða samfélaginu í heild."

Hann telur að þyngri refsingar og nafnbirtingar muni ekki hafa fælingarmátt en kalla hörmungar yfir fleiri en gerendur.

„Áður var þetta ekki refsivert með þessum hætti. Við gerðum þetta refsivert. Og samt segja menn: „þetta eykst og þetta eykst". Og samt ætla menn að hækka refsingarnar. Og þá á þetta að hverfa. Það er einhver rökvilla í þessu. Það eru aðrir aðrir þættir sem ráða því hvort þessi viðskipti eiga sér stað heldur en refsingar. Samfélagslegar ástæður. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að konur fara út í vændi. Þetta eru yfirleitt konur sem ekki geta verið á vinnumarkaði einhverra hluta vegna. Það er þrennt sem fólk gerir sem ekki getur verið á vinnumarkaði: Það er í kynlífssölu, það er í fíkniefnasölu og það fer í innbrot. Þannig er þetta bara, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Fólk nýtir sér tækifæri til að sjá sér fyrir framfærslu með einum eða öðrum hætti."

„Ef menn vilja alltaf fara þá leið að þyngja refsingar þá er það auðvitað sjónarmið," sagði Brynjar. „En ég held að það sé engum til gagns í þessum málaflokki né öðrum. Þyngri refsingar geta virkað að einhverju leyti en þær uppræta ekki neitt."

„En auðvitað þýðir ekkert að glíma hér við hugmyndafræði að þetta sé ofbeldisbrot, þótt það séu tveir fullorðnir fullráða einstaklingar sem taka ákvörðun, að þá sé það brot annars gegn hinum, eins undarlegt og það er. En látum það liggja á milli hluta, það er búið að ákveða það. En þú upprætir þetta ekkert og ef þú ætlar að þyngja refsingarnar í þessu þá muntu gera þennan heim harðari og ofbeldisfyllri. Og þá væri betur heima setið."

Bjarkey sagði Brynjar vilja tala sig frá því að vændi sé ofbeldi. „Ábyrgðin er hjá kaupanda," sagði Bjarkey. „Það er aðstöðumunur. Það er yfirleitt fólk í neyð sem er að selja blíðu sína. Konur hafa þurft að stíga fram til að afvopna þessa kaupendur, segja frá því hvernig þeim hefur liðið í þessari starfsemi. Það sem við þurfum að gera er að bæta úr og gera betur hjá lögreglu og einblína á þennan málaflokk. Stígamót hafa gert góða hluti með verkefninu Sjúk ást, því við þurfum líka að fara í forvarnir. Það er eitt af því sem kemur til með að skipta máli varðandi framtíðarhugsunina í þessum málum."