Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þvinga fólk í vinnu þrátt fyrir veikindaleyfi

Mynd: rúv / rúv
Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur meini starfsfólki að nýta veikinda- og slysarétt sinn og geri nýja samninga við þungaðar konur. Þetta segir Margrét Ólafía Tómasdóttir, doktor í heimilislækningum og meðlimur í stjórn félags íslenskra heimilislækna. Erlendir starfsmenn eigi oft allt undir vinnuveitanda og í sumum tilfellum fari yfirmaðurinn með þeim til læknis, oft í því skyni að hjálpa en stundum virðist tilgangurinn annarlegur.

Hver læknir með handfylli af dæmum

„Þetta er mjög algengt, við höfum öll örugglega fjölmörg dæmi um erlent starfsfólk sem lendir í því að vera sagt upp í veikindaleyfum, fær ekki að nýta veikindaréttinn,  er í raun þvingað aftur í vinnu áður en eðlilegu veikindaleyfi er lokið jafnvel þó endurhæfing sé í gangi á vegum lækna og þar fram eftir götunum, ég hugsa að hver læknir sé með handfylli af þessum dæmum,“ segir Margrét.

Margvísleg réttindi hunsuð

Félag íslenskra heimilislækna sendi í gær frá sér ályktun þar sem kom fram að það væri mjög áberandi í daglegu starfi heimilislækna hvernig brotið væri endurtekið á réttindum erlends starfsfólks varðandi húsnæði, laun, hvíldarrétt, öryggi á vinnustað, slysabætur, vekindarétt og aðgang að heilbrigðisþjónustu. Félagið skoraði á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að breyta þessu, bæta upplýsingagjöf til innflytjenda, herða lög um starfsmannaleigur og beita viðurlögum við brotum þannig að varnaðaráhrif þeirra verði virk. 

Ekki óalgengt að fólki sem slasast sé sagt upp

Margrét segir að erlent starfsfólk sé í viðkvæmri stöðu, leiti oft ekki til læknis fyrr en allt er komið í þrot. Vandamálin sem fólkið glímir við eru margs konar, bæði vandamál sem hrjá fólk almennt en Margrét segir líka mikið um meiðsli vegna slysa og að stundum megi rekja slysin til slæmra vinnuaðstæðna. Þá sé ekki óalgengt að fólki sem lendir í slíkum slysum sé sagt upp. „Flestallir innflytjendur eru jaðarsettir í þjóðfélaginu og mismunandi áhyggjur sem við höfum af hverjum hópi fyrir sig.  Í þessari ályktun ákváðum við að fókusera sérstaklega á erlent starfsfólk á vinnumarkaði því þeir koma til landsins á eigin vegum, það er ekki haldið eins vel utan um þá og hælisleitendur til dæmis og þeir eru oft undir hælnum á vinnuveitanda, vinnuveitendur hafa fundið fyrir það búsetu og lóðsa það um kerfið, ekki alltaf með réttum upplýsingum.“ 

Hún segir að í raun geti vinnuveitandi sem skaffar starfsfólki húsnæði gert það brottrækt úr landi með því að segja því upp, því það hafi hvorki vinnu né búsetu. 

Féll fjóra metra - skikkaður aftur í vinnu

Margrét lýsir aðstæðum manns sem leitaði til hennar nýlega, hann vinnur í byggingarvinnu. „Hann hafði ekki fengið að vera í öryggislínu í vinnunni, hann hafði fallið niður fjóra metra, tveimur mánuðum seinna var hann kominn aftur í fulla vinnu þrátt fyrir að vera í endurhæfingu með virkt vottorð frá læknum. Hann var í húsnæði á vegum vinnuveitanda og sagði að sig langaði að búa á Íslandi og sækja fjölskylduna. Hann sagði að vinnuveitandinn hefði beitt hann réttri tegund af þrýstingi og nú væri hann kominn aftur í vinnu. Þetta er eitt af þessum klassísku dæmum sem við sjáum nokkrum sinnum á ári.“ 

Gæti glímt við langvarandi verki

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Erlent starfsfólk sem hér starfar leitar oft á Læknavakt á kvöldin.

Hún segist hafa túlkað orð mannsins þannig að vinnuveitandinn hafi hótað honum því að hann myndi missa bæði vinnu og húsnæði kæmi hann ekki aftur til vinnu. Margrét segir það hafa slæm á heilsu mannsins að fara aftur að vinna svona stuttu eftir slysið. „Það gerir það að verkum að hann er í besta falli lengur að jafna sig af sínum áverkum, mögulega leiðir þetta af sér langvarandi verki sem hann jafnar sig ekki á.“ 

Brot í öllum geirum

Hún telur að þessi maður sé í hópi þeirra sem standi verst, það séu karlmenn sem komi hingað til að vinna og hyggist sækja fjölskyldu sína seinna. Brotin einskorðast þó ekki við byggingargeirann, læknar verða líka varir við brot í ræstingum, veitingageiranum og ferðaþjónustunni. „Það eru þessi láglaunastörf sem þetta erlenda vinnuafl sækir í eða fær vinnu við.“ 

Svindlað á þunguðum konum

Hún segir að þungaðar konur séu mjög viðkvæmur hópur sem læknar taki sérstaklega eftir. „Þær eru gjarnan í þjónustustörfum, ræstingu eða störfum á hótelum og eiga erfitt með að fá sinn veikindarétt fram á meðgöngu, jafnvel þannig að það sé verið að gera við þær nýja samninga með þá lækkaðri vinnuprósentu í staðinn fyrir að borga þeim veikindarétt á móti, alls kyns slík dæmi.“ 

Hún segir að erlent starfsfólk fái oft rangar upplýsingar um réttindi sín, láti bjóða sér meira. „Það vill vera hér áfram og fórnar sér þá greinilega.“

Fá verri þjónustu því þau koma ekki á daginn

En á það auðvelt með að skreppa úr vinnu til að fara til læknis. „Nei, það er hluti af vandamálinu,“ segir Margrét. „Það er alveg greinilegt að þetta fólk leitar meira á síðdegisvaktir og Læknavaktina og fær þá ekki eins góða þjónustu. Það þyrfti oft á túlki að halda sem sjaldnar er í boði í eftirmiðdagsþjónustunni, skiljanlega. Það þarf að panta þá með fyrirvara og það er jafnvel algengt að vinnuveitandinn komi með sem einhvers konar túlkur og maður getur kannski sagt sér sjálfur hvaða fókus það setur á samtalið.“ 

Hún segir að stundum vilji vinnuveitendurnir einfaldlega hjálpa en ekki alltaf. „Sumir vilja einfaldlega aðstoða vegna tungumálaerfiðleika en í önnur skipti fær maður á tilfinninguna að þarna eigi eitthvað að skipta sér af varðandi veikindarétt og svoleiðis.“

Erfitt að ná í þau og óljós búseta

En hvernig gengur að fylgja einstaklingum úr þessum hópi eftir? „Við reynum en það er erfiðara hjá þessum hópi, stundum er erfitt að ná í þau, þau eru með óljósa búsetu, það er erfitt að fá fast símanúmer hjá þeim, þau eiga erfitt með að skilja þegar maður hringir í þau þannig að það eru oft hindranir þar líka.“ 

Reyna að upplýsa fólk um réttindi sín

Hún segir að vandinn sé gamall en hafi færst mjög í aukana undanfarið, samhliða auknum fjölda erlends starfsfólks á vinnumarkaði. Læknar geri sitt besta við að upplýsa það fólk sem til þeirra leitar um réttindi sín og hvetji það til að hafa samband við stéttarfélög sín. 

Komist auðveldlega upp með brotin

Margrét segir að læknar hafi mikið rætt vandann sín á mili en þeir hafi ekki áður gripið til þess ráðs að senda frá sér opinbera ályktun og skora á stjórnvöld, mælirinn hafi einfaldlega verið fullur.  En hvað vilja læknar að stjórnvöld geri? „Við viljum að innflytjendur fái betri upplýsingar um réttindi sín, ég held að það sé grunnþáttur. Jafnvel að þeir geti leitað til óháðs aðila varðandi réttindi, eigi kost á lögfræðiráðgjöf eða ráðgjöf varðandi heilbrigðiskerfið. Ég myndi vilja að vinnuverndarlögum væri fylgt betur eftir, og jafnvel, því það má refsa fyrir brot á þessum lögum, að það verði þá gert í auknum mæli, “ segir hún, vinnuveitendur komist of auðveldlega upp með því að brjóta á fólki.