Því meira flækjustig – því skemmtilegra

Mynd: Opnun / RÚV

Því meira flækjustig – því skemmtilegra

22.03.2017 - 11:58

Höfundar

Myndlistarmaðurinn Haraldur Jónsson spáir mikið í tengsl líkama og rýmis, vitundar og umhverfis í verkum sínum.

„Ástæðan fyrir því að ég ákveð að gerast myndlistarmaður er að mér fannst það ríkari heimur og spennandi að vinna með hversdaginn og stilla saman hlutum hvort sem það eru tilbúnir hlutir, með því að breyta þeim aðeins, eða taka hluti af einu sviði hversdagsins og setja þá yfir á annað,“ segir Haraldur.

Hann segir að það sé skýr lína í gegnum öll hans verk — hans vinnuaðferð stýrist af því að koma sjálfum honum og öðrum á óvart.

Fólk fékk svima

Haraldur mátar sig við byggingar og ytri aðstæður, en fer líka inn á við – inn í rými líkamans, tungumálsins og tilfinninganna. Í einu verka hans setti hann upp litróf tilfinninganna í stafrófsröð, svo úr varð tilfinningaveggfóður.

Mynd með færslu
 Mynd: Opnun - RÚV

„Þannig var að ég var að lesa sjálfshjálparbækling á sínum tíma og þar var talað um ákveðnar grunntilfinningar, en það væru líka margskonar tilfinningamengi,“ segir Haraldur. „Ég sá þetta og varð instantly heillaður. Hér leynist eitthvað rosalegt verk maður. Það sem ég gerði, var að ég tók allar þessar tilfinningar og raðaði þeim upp í stafrófsröð. Fólk fékk bara svima þegar það las allar þessar tilfinningar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Opnun - RÚV

„Fyrir mér var þetta hinn endanlegi skúlptúr. Tilfinningaveggfóður. Þú stendur inni í tóminu, inni í rýminu með vegg fyrir framan þig og þú ert stöðugt að ritskoða sjálfan þig, hvernig þér líður.“

Rætt var við Harald Jónsson myndlistarmann í sjónvarpsþættinum Opnun. Í þáttunum verður opnað fyrir hugarheim 12 listamanna og boðið upp á þversnið af því sem er að gerast í íslenskri samtímamyndlist.

Listamennirnir taka þátt í samsýningu sem opnar í Kling og Bang gallerí í Marshall-húsinu 29. apríl. Í þættinum var einnig rætt við Elínu Hansdóttur.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Heimurinn þarf ekki að vera í 90° vinklum

Myndlist

Þversnið af íslenskri samtímamyndlist

Myndlist

Í leiðslu um rými