Þvertekur fyrir að flugskeyti hafi grandað flugvélinni

10.01.2020 - 09:15
Erlent · Íran
CORRECTS YEAR - Debris is seen from a plane crash on the outskirts of Tehran, Iran, Wednesday, Jan. 8, 2020. A Ukrainian airplane carrying at least 170 people crashed on Wednesday shortly after takeoff from Tehran’s main airport, killing all onboard, state TV reported. (AP Photos/Mohammad Nasiri)
 Mynd: AP
Ali Abedzadeh, flugmálastjóri Íran, segir af og frá að íranskt flugskeyti hafi grandað úkraínsku farþegaþotunni sem hrapaði nærri Teheran í fyrrinótt með 176 manns um borð. Á blaðamannafundi í dag sagði hann allar yfirlýsingar sem gefnar væru út áður en gögn liggja fyrir ómarktækar.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segja allt benda til þess að þotan sem hrapaði nærri hafi verið skotin niður með írönsku flugskeyti og að mikilvægt væri að ítarleg rannsókn færi fram á málinu.

Trudeau og Johnson bætast þannig í hóp fjölda þjóðarleiðtoga sem telja að farþegaþotan hafi verið skotin niður með írönsku flugskeyti, en þó að líkindum fyrir mistök. Þotan fórst nokkru eftir að Íranar gerðu flugskeytaárás á tvær herstöðvar í Írak þar sem herlið Bandaríkjamanna og annarra Atlantshafsbandalagsríkja hélt til.

Íranar hafa boðið stjórnvöldum allra hlutaðeigandi ríkja, auk Bandaríkjanna, að senda fulltrúa sína til að taka þátt í og fylgjast með framvindu rannsóknarinnar. Einnig hefur Boeing flugvélaframleiðandanum verið boðið að senda fulltrúa á vettvang.