Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir mótmæltu dómsmálaráðherra í Prag

22.05.2019 - 02:10
Mynd: EBU / EBU
Mörg þúsund manns voru saman komin á götum Prag í dag vegna ráðningar nýs dómsmálaráðherra. Almenningur hefur áhyggjur af því að nýi ráðherrann eigi eftir að hreinsa forsætisráðherra Tékklands af ásökunum um svik.

Andrej Babis var ákærður í fyrra vegna tengsla sinna við svikamál er varðar tveggja milljóna evra niðurgreiðslu frá Evrópusambandinu. Lögregla kallaði eftir því í síðasta mánuði að saksóknarar birtu milljarðamæringnum Babis ákæruna. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi, en hann heldur statt og stöðugt fram sakleysi sínu. 

Skipuleggjendur mótmælanna segja nokkra tugi þúsunda hafa látið sjá sig, og mótmælin hafi verið þau fjölmennustu síðan byrjað var að þrýsta á dómsmálaráðherann Marie Benesovu. Hún gegndi sama embætti árin 2013 og 2014, og var yfirríkissaksóknari frá 1999 til 2005. Margir óttast að hennar hlutverk sé að bera sakir af Babis, og kröfðust mótmælendur í kvöld sjálfstæðs dómstóls að sögn AFP.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV