Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir í lífshættu uppi á þökum og í trjám

21.03.2019 - 06:14
Erlent · Hamfarir · Afríka · Mósambík · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Hjálparsamtök vinna nú að því hörðum höndum að koma nauðstöddum Mósambíkum til bjargar eftir að fellibylurinn Idai breytti stórum landsvæðum í víðfeðm stöðuvötn. Umfang flóðanna sem fellibylurinn orsakaði er enn meira en ætlað var í fyrstu og segir starfsfólk hjálparsamtaka á svæðinu þúsundir manna í lífshættu á flóðasvæðunum þar sem þær hafast við á þökum hálfsokkinna húsa og jafnvel uppi í trjám sem umflotin eru vatni.

Matarskortur og skortur á hreinu drykkjarvatni fer vaxandi og hættan á smitsjúkdómum líka. Óveðrið skall á þremur ríkjum í sunnanverðri Afríku í síðustu viku, Mósambík, Malaví og Simbabve, og olli miklu manntjóni, flóðum og skemmdum á mannvirkjum í þeim öllum.

Mósambík varð langverst úti. Þar eru staðfest dauðsföll ríflega 200 og mikið land enn undir vatni, viku eftir að veðrið dundi yfir. Samtals eru staðfest dauðsföll í löndunum þremur farin að nálgast 400 og fullvíst er talið að mun fleiri hafi farist. Hundruð þúsunda hafa ýmist misst heimili sín eða neyðst til að yfirgefa þau vegna flóðanna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV