Þúsundir flóttamanna þrá lífið í Evrópu

16.12.2013 - 21:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Mörg þúsund afrískir hælisleitendur reyna árlega að klifra yfir landamæragirðingu í Marokkó sem aðskilur landið frá spænska bænum Melilla. Spænsk yfirvöld óska eftir aðstoð frá öðrum Evrópusambandsríkjum. Erfitt sé að ráða við aukinn straum flóttamanna og mansal vaði uppi á svæðinu.

Myndir úr öryggismyndavélum spænsku lögreglunnar sýna mörg hundruð hælisleitendur ganga í átt að landamæragirðingu í Norður-Marokkó, umhverfis bæinn Melilla, sem er spænskt yfirráðasvæði. Þær sýna hælisleitendurna reyna að klifra yfir sjö metra háa víggirðinguna, alla í einu,  í von um að komast ólöglega inn  á landsvæði  Evrópusambandsins. 

Þetta eru aðallega ungir menn frá Mið-Afríku, Kamerún, Fílabeinsströndinni , Níger og Malí,  sem hafast við í hellum í Gurugu skóginum skammt frá og hafa ítrekað reynt að komast yfir þrefalda girðinguna. Fæstum tekst það.  

Flóttamaður frá Malí segist hafa flúið stríðið í heimalandi sínu. Foreldrar hans séu látnir; hann eigi yngri systur á lífi en bróðir hans hafi verið myrtur. „Ég hef misst svo mikið nú þegar. Ég legg líf mitt að veði til að komast til Evrópu og óttast dauðann ekki.“

Melilla er 80.000 manna bær og er stundum kallaður bakdyrnar að Evrópu þar sem hann, og nágrannabærinn Ceuta, eru einu staðirnir þar sem landamæri Evrópusambandsins liggja að Afríku. 

Mikil öryggisgæsla er á landamærastöðinni. Hlustunartæki er notað til að nema hjartslátt þeirra sem fela sig í bílum. Spænsk yfirvöld segja nauðsynlegt að önnur Evrópusambandsríki taki meiri ábyrgð, því mansal vaði uppi á svæðinu. 

José Palazón, forseti mannréttindasamtakanna Prodeint, er þekktasti baráttumaður fyrir mannréttindum í Melilla. Hann trúir því að þörf sé á því að taka málið til gagngerrar endurskoðunar. „Ég held að innflytjendastefna Evrópu sé hörmung,“ segir hann. „Hún veldur aðeins þjáningum og dauða. Hægt er að setja upp gaddavíra og hindranir. Þær eiga ekki eftir að koma í veg fyrir að fólk reyni að komast yfir.“ Talað sé um fólkið sem standi fyrir mansali, en þessar hindranir verði aðeins til þess að verðið sem fólkið þarf að greiða þeim hækkar. Þannig styrki aðgerðirnar viðskipti með mannslíf í stað þess að finna lausn á vandamálinu. 

Andrew Kamaha, flóttamaður frá Gabon, segir flóttamenn ekki sækja til Melilla vegna þess að þeir beri hlýjar tilfinningar til Evrópu. „Við erum hér því við viljum koma fjölskyldum okkar til hjálpar. Ég vil ekki verja næstu 15 til 20 árum í Evrópu. Ef mér tekst að verða mér úti um nógan pening til að hefja rekstur í Gabon, þá mun ég gera það. Fyrir mér er Evrópa staður þar sem ég get fengið tækifæri, en þau eru, eins og er, mér utan seilingar.“