Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þúsundir flóttamanna í einskismannslandi

23.12.2015 - 11:11
Zaatari flóttamannabúðirnar í vestanverðri Jórdaníu. Búðirnar voru settar á fót 2012.Talið er að um 83.000 flóttamenn frá Sýrlandi hafist þar við.
Zaatari flóttamannabúðirnar í vestanverðri Jórdaníu. 83.000 sýrlenskir flóttamenn búa hér við aðstæður sem eru mun betri en í einskismannslandinu. Mynd: Wikimedia Commons
Um 12.000 sýrlenskir flóttamenn eru fastir í einskismannslandi milli landamæra Sýrlands og Jórdaníu. Aðeins nokkrum tugum flóttamanna er hleypt yfir landamærin frá Sýrlandi til Jórdaníu á degi hverjum. Þúsundir karla, kvenna og barna þurfa að hafast við mánuðum saman í tjaldbúðum í eyðimörkinni.

Tjaldbúðir fólksins, rétt utan við landamæri Jórdaníu, sjást greinilega á gervihnattamyndum sem mannréttindasamtökin Human Rights Watch birta á heimasíðu sinni.

Um 632.000 Sýrlendingar hafa flúið til Jórdaníu samkvæmt tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Rúmar átta milljónir bjuggu í landinu fyrir og hefur fjölgun flóttafólks valdið verulegu álagi á stofnanir samfélagsins. Mannréttindasamtök hafa ítrekað hvatt þjóðir heims til að aðstoða Jórdani við móttöku flóttafólks og taka á móti hluta af þeim fjölda sem leitað hefur til landsins

Um mitt ár 2013 gripu Jórdanir til þess ráðst að loka landamærum landsins, þar sem þau liggja að vestustu hlutum Sýrlands. Þetta kemur fram í umfjöllun um málið á vef mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. Vestustu hlutar Sýrlands eru þéttbýlir og fólk þaðan ferðaðist margt hundruð kílómetra að stöðum í austri, þar sem enn var hægt að komast yfir landamærin.

Í júlí 2014 var hins vegar dregið mjög úr umferð yfir landamærin á þessu svæði líka. Síðustu misseri hafa aðeins nokkrir tugir fengið að fara yfir landamærin á dag. Þúsundir þurfa hins vegar að hafast við í einskismannslandi í eyðimörkinni í tvo til þrjá mánuði, á meðan þeir bíða þess að fá pláss í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV