Þurrkatíð rýrir fóðurgildi

14.06.2019 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bændur þurfa að hafa viss atriði í huga þegar kemur að heyöflun í þurrkatíð sem nú ríkir víða um land. Vökvun getur borgað sig, en er bæði kostnaðarsöm og umfangsmikil.

Þetta kemur fram í grein sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins sendi frá sér í gær sem fjallar um heyöflun í þurrkatíð. 

Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, fóðurráðgjafi hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, segir að bændur séu víða um land í vandræðum vegna rigningaleysis. Þegar slíkar aðstæður ríki þurfi menn að gera það upp við sig hvort þeir eigi að slá eða bíða eftir rigningu. Þó að aðstæður geti verði mismunandi á milli svæða þá sé skárri kostur að slá á meðan gæði grass eru sæmileg og fá minni uppskeru frekar en að sitja uppi með mikið af gæðalitlum heyjum. Þá þurfi að gæta að því að slá ekki of neðarlega því slíkt geti skemmt fyrir endurvexti.

Vatnsskortur veldur rýrnun

Í þurrkatíð bregðast grösin við með því að krossbinda tréni betur en ella og við það hækkar ómeltanlegi hluti þess mjög hratt. Að sama skapi fellur fóðurgildi heysins.

Einfölduð efnaformúla ljóstillífunar er að plöntur taka upp koltvísýring, vatn og ljós til að mynda súrefni og sykrur. Skorti vatn dregur úr ljóstillífun. Ljóstillífun á sér aðeins stað í grænum hlutum plöntunnar, þar sem grænukornin fanga orku ljóssins, og því mikilvægt að slá ekki né beita alveg niður í svörðinn. Séu einungis eftir hvítir hlutar plöntunnar eftir slátt eða beit þarf plantan að ganga á forða í rótakerfi sínu til að koma nýjum blöðum af stað í ljóstillífun. 

Þá getur verið gott þar sem því verður við komið að vökva túnin með vökvunarbúnaði. Slíkt er kostnaðarsamt en mögulega geta bændur sameinast um kaup á slíkum búnaði.

Mikið vatn sem þarf til vökvunnar

Í pistli sem Jötunn vélar birtu á Facebook í gær koma fram tölur sem setja vatnsmagn í samhengi við úrkomu.

Þar kemur fram að uppgufun vatns frá plöntum í vexti sé oft ígildi þriggja millimetra úrkomu á sólarhring. Á mjög hlýjum dögum getur þessi uppgufun farið upp í fimm til sex millimetra á sólarhring.

Til að átta sig á umfangi vatnsins þá þarf 50.000 lítra af vatni til að ná fimm millimetra úrkomu á einum hektara, sem er 100 sinnum 100 metrar. Því er uppgufun frá plöntum í vexti á mjög hlýjum degi um 50.000 lítrar af vatni á sólarhring.

Því þarf mjög mikið vatn að vera í boði til að vökvun skili árangri. Víða er lítið grunnvatn í boði vegna þurrka.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi