Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þurfa dagþjálfun núna, ekki seinna

Smiður, sem er með heilabilun, fékk tækifæri til að sinna iðn sinni í dagþjálfun og upplifði þannig aukin lífsgæði og sjálfstæði. Dóttir hans segir sorglegt að heyra að á höfuðborgarsvæðinu bíði um tvö hundruð manns eftir slíkri þjálfun.

Vonleysi og álag, bæði hjá sjúklingum og aðstandendum, getur fylgt því að bíða eftir að komast að í dagþjálfun. Formaður Alzheimerssamtakanna sagði í fréttum í gær að um tvö hundruð manns með heilabilun bíði nú eftir dagþjálfun á höfuðborgarsvæðinu. Rúmt ár getur tekið að komast að. Faðir Drafnar Vilhjálmsdóttur greindist með heilabilun árið 2013, þá 63 ára. Eftir nokkurra mánaða bið komst hann í dagþjálfun í Maríuhúsi í Reykjavík. Þangað fór hann reglulega í tvö og hálft ár á meðan heilsan leyfði. Hann er nú kominn í annað úrræði. Dröfn segir að þjálfunin hafi skipt sköpum fyrir föður hennar. 

„Fyrir sjúklingana sjálfa þá á þetta úrræði að koma inn þegar sjúklingurinn er farinn að missa færni, getur jafnvel ekki verið einn heima en dagþjálfunin gerir honum kleift að viðhalda færni sinni og sinna því sem hann kannski gat sinnt áður með faglegri aðstoð. Fyrir föður minn þýddi þetta að hann sem smiður gat verið á smíðaverkstæðinu og gat verið í garðverkum, verið í göngutúrum og þetta veitti honum svo mikla lífsfyllingu og lífsgæði,“ segir Dröfn.

Dröfn bendir á að umönnun fólks með heilabilun geti reynt mikið á aðstandendur. „Þarna eru faglegir aðilar, iðjuþjálfar og aðrir sem hjálpa til við að viðhalda færninni og láta manni finnast maður áfram vera sjálfstæður og fá lífsfyllingu. Og þetta þýddi það að móðir mín gat haldið áfram að vinna, annars hefði hún þurft að hætta að vinna og bara þurft að sinna honum allan sólarhringinn. Þannig að þetta er bara ómetanlegt bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur.“

Hún segir að það séu ekki aðeins tvö hundruð sjúklingar sem bíði eftir dagþjálfun, heldur einnig fjöl margir aðstandendur. Því sé til mikils að vinna fyrir samfélagið að bæta úr og fjölga úrræðum fyrir alla sem á þeim þurfi að halda. „Mér finnst sorglegt að heyra að það séu 200 sjúklingar sem bíða eftir þessu úrræði því að þeir þurfa úrræði núna, ekki seinna, það er núna sem það nýtist þeim.“