Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þurfa að ganga lengra í loftlagsmálum

13.06.2016 - 19:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnvöld hér þurfa að ganga harðar fram til þess að hitastig hækki ekki um meira en tvær gráður á þessari öld, líkt og loftlagssamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um. Þetta segir háskólaprófessor.

Norðurlöndin þurfa að geta náð nánast kolefnishlutlausu orkukerfi fyrir árið 2050 til þess að geta uppfyllt markmið loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna um hitastig hækki ekki meira en um tvær gráður á selsíus á þessari öld. Kolefnishlutleysi táknar aðgerðir sem miða að því að fjarlægja jafn mikið af koltvísýringi, sem er algengasta gróðurhúsalofttegundin, úr andrúmsloftinu eins og við mannfólkið losum þangað. Til dæmis geta fyrirtæki gróðursett tré til að bæta upp fyrir notkun á olíu. 

Orkustofnun stóð í dag fyrir kynningarfundi á skýrslu sem unnin er af norrænum vísindamönnum og Alþjóðaorkumálastofnuninni. Niðurstaðan er sú að með samstarfi geti Norðurlöndin nánast staðið á sléttu varðandi losun koltvísýrings. „Ísland getur gert mun betur þegar kemur að orkuskiptum og við höfum svo sannarlega allt efni til þess að gera betur,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskola Íslands.

Helstu leiðir hér til úrbóta eru að skipta um orkugjafa í samgöngum og svo hjá fiskiskipaflotanum.  „Niðurstöður skýrslunnar sýna það að það sem kemur best úr varðandi samgöngur er að við rafvæðum bílaflotann, þ.e.a.s. fólksbíla og minni sendibíla, en síðan að öllum líkindum hentar okkur best að fara yfir í lífeldsneyti þegar kemur að stærri bifreiðum. Og það sama á við um sjávarútveginn,“ segir Brynhildur.

Norðmönnum hafi til að mynda tekist að auk mjög hlut rafbíla, með skattaívilnunum, ókeypis bílastæðum, forgangsakbrautum og ókeypis hleðslu á rafbíla. Brynhildur segir raunhæft að unnt verði að knýja frystitogara með lífeldsneyti. „Þetta er raunhæfur möguleiki fyrir sjávarútveginn og við sýnum fram á að þetta er vel hægt ef stjórnvöld koma með nokkuð metnaðarfullar reglugerðir og stjórnvaldsaðgerðir,“ segir Brynhildur. 

Hún sagði í erindi sínu í dag að stjórnvöld þyrftu að láta meira að sér kveða. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði í byrjun júní fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um orkuskipti. En dugir þessi tillaga, er nóg að gert með henni? „Hún gengur náttúrulega mun styttra, mun skemur en það sem við erum að skoða í þessari skýrslu. Það sem við erum að skoða hér er hvernig norðurlöndin geti orðið það sem kallast carbon  hlutlaus. þ.e.a.s. dregið úr losun gróðurhúsalottegunda um nánast 85%,“ segir Brynhildur. 

Það sé annað viðfangsefni en í tillögu ráðherra. „Þannig að augljóslega gengur þingsályktunartillagan ekki nægilega langt þegar kemur að svona stúdíu eins og við erum að kynna hér í dag en hvert skref í skref í rétta átt,“ segir Brynhildur.

Þó svo að það hafi ekki verið hluti af úttektinni sem kynnt var í dag, þá er hér á landi einnig töluverð losun koltvísýrings frá álverum og svo fyrirhuguðum kísilverum.