Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þurfa að borga VSK af bandarískri silfurmynt

24.09.2018 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Bandaríska myntsláttan
Bandarísk viðhafnarmynt úr silfri, sem fólk flutti hingað til lands til að verja sparnað sinn, ber 24% virðisaukaskatt, samkvæmt ákvörðun yfirskattanefndar. Fólkið freistaði þess að losna undan skattgreiðslunum vegna þess að myntin væri löggildur gjaldeyrir, en hafði ekki erindi sem erfiði.

Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að fólkið hafi um hríð keypt mynt af þessu tagi útgefna af bandarísku myntsláttunni. Þetta séu peningar sem á ensku kallast American Eagle Silver Bullion. Þeir eru 31 gramm að þyngd og að 99,9% úr silfri.

Fólkið keypti myntina í sparnaðarskyni, segir í úrskurðinum. Það hafi þannig eignast varasjóð og dreift áhættu með því að binda ekki allan sparnað í íslenskum krónum. Ekki kemur fram hvert fólkið er eða hversu mikið það hefur keypt af myntinni.

Kosta hátt í 20 dollara hver

Tollstjóri lagði 24% virðisaukaskatt á myntina í fyrrasumar og 22. ágúst í fyrra fór fólkið fram á að hann yrði felldur niður – myntin væri löglegur gjaldeyrir í Bandaríkjunum og eðli málsins samkvæmt þyrfti ekki að greiða virðisaukaskatt af gjaldeyri.

Tollstjóri hafnaði beiðninni og benti á að peningaseðlar, mynt og frímerki bæru virðisaukaskatt þegar þessir hlutir væru seldir sem söfnunargripir. Þannig væri með þessa silfurmynt, enda væri hún ekki nema einn dollari að nafnvirði, sem væri að mestu táknrænt enda raunvirði 30 gramma silfurs mun meira. „Yrði að telja að ætlun kaupanda væri að safna og varðveita myntina en ekki nota myntina sem hefðbundinn gjaldmiðil,“ segir í úrskurðinum.

Lausleg athugun fréttastofu bendir til þess að ný mynt af þessu tagi gangi kaupum og sölum fyrir jafnvirði um 2000 íslenskra króna, 18 til 19 sinnum meira en nafnvirðið. Myntsláttan bandaríska selur myntina á markaðsvirði en ekki nafnvirði.

Venjulegur sparnaður í erlendum gjaldeyri, sagði fólkið

Engu að síður kærði fólkið niðurstöðu tollstjóra til yfirskattanefndar á þeirri forsendu að þar væri ranghermt að það ætlaði sér að safna og varðveita myntina en ekki nýta hana sem gjaldeyri. Þetta væri venjulegur sparnaður í erlendum gjaldeyri en ekki söfnunargripir.

Fólkið vísaði í dæmaskyni til svokallaðrar tveggja evru minnismyntar, sem aðildarríkjum myntbandalags Evrópu væri heimilt að gefa út. „Slík mynt sé gjaldgeng mynt á öllu evrusvæðinu og telji kærendur fullvíst að tollstjóra dytti ekki í hug að leggja virðisaukaskatt á slíka mynt í innflutningi,“ segir í úrskurðinum.

Yfirskattanefnd fellst á röksemdir tollstjóra um að myntin sé ekki hefðbundin gjaldmiðill heldur fyrst og fremst keypt í söfnunar- eða fjárfestingaskyni. Það er rökstutt með því að myntin sé gefin út í takmörkuðu upplagi og sé seld á markaðsvirði sem ráðist af heimsmarkaðsverði á silfri.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV