Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Þurfa að bíða í flugvélunum vegna veðurs

10.11.2013 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðrið veldur töfum á Keflavíkurflugvelli. Farþegar sem komu með síðdegisflugi Icelandair hafa þurft að bíða hátt í tvær klukkustundir um borð vegna veðursins. Ekki hefur verið hægt að setja afgreiðslutæki upp að flugvélum sem lagt var hjá gömlu flugstöðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA þurfa farþegarnir að bíða um borð þar til veðurmörk gera afgreiðslu mögulega.  Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segist telja að flugþjónarnir geri allt til að gera biðina bærilega. 

Flugfarþegi sem kom frá Kaupmannahöfn síðdegis segir að hann hafi þurft að bíða í um klukkutíma í vélinni áður en farþegum var hjálpað frá borði með aðstoð björgunarsveita. Hann segir að vélin hafi hrist svo mikið að fólk hafi orðið sjóveikt og kastað upp. Fólkið hefur enn ekki fengið töskur sínar afhentar því ekki er hægt að komast í farangursrýmið vegna veðurs. 

Flugvél sem var á leið til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn var snúið við vegna veðurs og lendir í Glasgow upp úr klukkan sex. Guðjón Arngrímsson segir að farþegarnir gisti á hóteli í borginni í nótt og komi hingað til lands á morgun. Kvöldflugi flugfélagsins frá Ósló, Stokkhólmi, Lundúnum og Kaupmannahöfn hefur verið seinkað framyfir miðnætti.  

Farþegar tveggja flugvéla WOW Air voru fluttir með rútum í flugstöðina og samkvæmt ISAVIA er undirbúningur hafinn á akstri annarra flugvéla að flugstöðinni til afgreiðslu og verða þær tengdar við landgöngubrýr strax og öruggt þykir.

Brottförum til Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada var frestað til að minnsta kosti klukkan hálf sex í kvöld.