Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þunnt ósonlag vegna mengunar

15.02.2016 - 19:31
Óson kort.  Bláa svæðið sýnir hvar ósonið er þynnst
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Árni Sigurðsson veðurfræðingur segir að óvenjulega stórt þynningarsvæði á ósonlaginu geti verið yfir landinu fram að jafndægri að vori. Talið er að þynnra ósonlag sé fylgifiskur loftslagsbreytinga.

Einstaklega gott skíðafæri var um helgina og þyrptist fólk í skíðabrekkurnar en það hitti svo á að óvenjulega lágt óson var yfir landinu. Þynningarsvæði á ósonlaginu hefur verið á sveimi yfir Íshafinu og Atlantshafi í vetur.  Bláa svæðið sýnir hvar ósonið er þynnst og hvernig svæðið færist yfir landið. Ekki er talað um gat heldur þynningarsvæði eða holur. Fyrirbærið kemur gjarnan á þessum tíma. 

„Það má segja að þetta sé óvenju stórt .. óvenju mikil lægð núna í vetur heldur en hefur verið.“

Þunna svæðið færist í hring yfir norðurskautinu vegna þess að í kringum svæðið er straumur. Samskonar hringstraumur er yfir suðurskautinu.  
 
„Það er gjarnan minna óson innan við þennan hringstraum það er bara eðlilegt en svona mikið minna það er okkur að kenna.“
 
„Við höfum verið að menga og sleppa sérstökum klórflúorkolefnum út í loftið og þau geta skipt þarna máli.“

Veðurstofan tók á það ráð um helgina að vara fólk við þunnu ósonlagi og hvatti útivistarfólk til að nota sólarvörn og sólgleraugu, sérstaklega ef það var á svæðum þar sem snjór var á jörðu. 

„Hvað stendur þetta lengi?  við vitum það ekki, vitum bara að það nær venjulega ekki yfir jafndægur afþví að þá gerast þær breytingar að þessi hringstraumur hættir.“

„Menn hafa aðeins áhyggjur af því að þetta geti verið fylgisfiskur gróðurhúsaáhrifanna og hlýnunnar í lofthjúpnum.“

Þó svo að fólk sleppi minna af klórflúorkolefnum út í loftið núna eyðist efnið á löngum tíma. 
 
„Þannig að þetta er lengi lengi að fara út það kemur að því eftir einhverja áratugi að við hættum að hafa þetta vandamál.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV