Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þunguð kona lést eftir fall af landamæragirðingu

13.03.2020 - 06:41
FILE - In this April 10, 2000, file photo, a marker embedded in the pavement marks the imaginary line between the United States and Mexico at the San Ysidro border checkpoint between San Diego, Calif., and Tijuana, Mexico. The rare conjunction of two
 Mynd: AP
19 ára þunguð kona frá Gvatemala lést á þriðjudag eftir að hafa reynt að klifra yfir landamæragirðingu í Texas. Yfirvöld í Gvatemala greindu frá þessu í gær. Konan féll aftur fyrir sig ofan af 5,5 metra hárri girðingu sem hún reyndi að klífa ásamt væntanlegum barnsföður sínum. Konan, Miriam Estefany Giron Luna, var komin 30 vikur á leið þegar hún lést. 

Fjölmiðlar vestanhafs hafa eftir Tekandi Paniagua, starfsmanni í sendiráði Gvatemala í Texas, að ný innflytjendalög Bandaríkjastjórnar hafi leitt til þess að flóttamenn taka meiri áhættu til að komast til Bandaríkjanna. Frá því í október hafa minnst fimm aðrir Gvatemalabúar brotið bein eða hlotið aðra alvarlega áverka eftir að hafa dottið ofan af landamæragirðingunni.

Samkvæmt frétt Washington Post af láti Giron Luma missti hún takið þegar hún reyndi að síga niður girðinguna Bandaríkjamegin. Tilvonandi barnsfaðirinn leitaði hjálpar hjá landamæravörðum sem kölluðu eftir sjúkrabíl. Læknar í borginni El Paso reyndu að bjarga barninu með keisaraskurði, og gerður var fjöldi aðgerða á Giron Luna áður en hún lést. Barnsfaðirinn er í haldi landamæraeftirlits Bandaríkjanna og bíður þess að vera vísað úr landi.

Metflótti frá Mið-Ameríku

Hert innflytjendalög eru meðal helstu stefnumála Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í baráttu sinni fyrir endurkjöri. Yfir 60 þúsund hælisleitendur hafa verið sendir aftur til Mexíkó á meðan mál þeirra eru til skoðunar hjá bandarískum yfirvöldum. Alls voru 470 þúsund flóttamenn hnepptir í varðhald í fyrra, sem var metár í hælisumsóknum fólks frá Mið-Ameríku. Þaðan flýr fólkið ofbeldi, fátækt og pólitískar ofsóknir í heimalandi sínu. Með því að senda fólkið aftur til Mexíkó hefur flóttamönnum í varðhaldi í Bandaríkjunum fækkað um 75% að sögn þarlendra yfirvalda. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV