Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Thunberg mótmælti við höfuðstöðvar SÞ

epa07804972 Young activists including Swedish activist Greta Thunberg (C) participate in a climate strike outside the United Nations in New York, New York, USA, 30 August 2019. Greta will participate in the upcoming United Nations Climate Action Summit in September. Her protests on Fridays, known as Fridays for Future', demanding action on climate change have inspired people in over 100 cities across the world.  EPA-EFE/ALBA VIGARAY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hundruð bandarískra ungmenna tóku þátt í mótmælum Gretu Thunberg gegn aðgerðarleysi stjórnvalda á heimsvísu vegna loftslagsbreytinga. Thunberg hefur mótmælt opinberlega á hverjum föstudegi í rúmt ár, fyrst um sinn ein. Mörg ungmennanna sögðust vera á sínum fyrstu mótmælum vegna loftslagsbreytinga. Aðrir sögðust hafa haft áhuga á umhverfismálum í talsverðan tíma, en vikuleg mótmæli Thunberg hafi verið þeim hvatning.

Í þetta sinn voru mótmælin fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Þangað er Thunberg komin eftir ríflega tveggja vikna siglingu á seglskútu, ferðamáti sem hún valdi til að skilja eftir sig sem minnst kolefnisfótspor. Sjálf hélt hún á sínu skilti með áletruninni: Skolstrejk för klimatet, sem þýðir skróp í skóla fyrir loftslagið á íslensku.

Hin 14 ára Alexandria Villasenor hefur mótmælt við höfuðstöðvarnar á hverjum föstudegi síðan í desember. Hún segir í samtali við Guardian að skólaskróp Thunberg hafi veitt henni innblástur. Þær Thunberg, Villasenor og Xiye Bastida Patrick, 17 ára skipuleggjandi alþjóðasamtakanna Fridays for Future, fengu óvænt boð inn í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Þar tók Maria Fernanda Espinosa, forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, á móti þeim. Stúlkurnar fengu leiðsögn um húsið. Meðal þess sem þær fengu að sjá var ponta allsherjarþingsins, þar sem Thunberg kemur til með að standa þegar hún flytur ræðu á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í september. Þá fengu þær tækifæri til þess að ræða við Espinosa um komandi þing, hnattræna hlýnun, skógarelda um heim allan og einnota plast. Villasenor segir Espinosa hafa tekið vel í tillögur þremenninganna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV