Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“

08.08.2019 - 13:49

Höfundar

„Í dag er gullöld drags í heiminum,“ segir Gógó Starr ríkjandi dragdrottning Íslands sem heldur Íslandsmeistaramótið í dragi í tengslum við Hinsegin daga í Austurbæ á föstudagskvöld.

Keppnin hefur ekki verið haldin síðan 2015 svo að Gógó hefur verið dragdrottning Íslands í fjögur ár. Finnst henni ekkert erfitt að láta kórónuna af hendi? „Ég keypti nýja því ég vil ennþá eiga mína,“ segir hún. Aðspurð um út á hvað drag gangi segir Gógó að það fari eftir persónum. „En fyrir mér er drag bara skemmtunarform. Sviðslistarform sem gengur út á að brjóta niður kynjamúra og gera eitthvað faboulous og skemmtilegt.“ Hún segir alls ekki nauðsynlegt að vera hinsegin til að taka þátt í dragi, en mikill meirhluti þeirra sem það stundi séu þó hinsegin. „Ég held það sé eitthvað í því að sleppa sínum innri kvenleika, sem er eitthvað sem maður mátti ekki sem lítill strákur,“ segir Gógó.

Dragsenan er alltaf að þróast og drag fyrir 20 árum var allt öðruvísi en það er nú. Gógó segir að í dag sé gullöld drags í heiminum. „Ég held að mikið af því sé að þakka raunveruleikaþættinum Ru Pauls Drag Race, en svo sér maður líka hvað almenningur er farinn að mæta á sýningar. Þetta er ekki bara á skítugum klúbbum heldur komið inn á árshátíðir og út um allt.“ En hvað þarf til að sigra dragkeppni? „Ég myndi segja æðislegt attitúd. Burtséð frá andlitsmálningunni, hælunum og öllu glingrinu, þá er það bara að geta selt það sem þú ert að gera og njóta þess í botn. Eigna sér sviðið, þú þarft að eigna þér sviðið mitt.“

Snærós Sindradóttir ræddi við Gógó Starr í Sumrinu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fimm fjörlegar hinsegin skáldsögur

Tónlist

Rammstein mótmælir banni við „hinsegin áróðri“

Dalvíkurbyggð

Regnbogagata Hinsegin daga opnuð á Dalvík

Mannlíf

Dragdrottning verður sérleg karnival-fjallkona