Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þróunarmarkmið og sjálfbær þróun

07.09.2015 - 15:51
Mynd: ?? / 2015.is
Fulltrúar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna náðu í byrjun ágústsmánaðar tímamótasamkomulagi um ný þróunarmarkmið sem taka við af þúsaldarmarkmiðunum. Stefán Gíslason fjallar um þau í pistli sínum í dag.

Þróunarmarkmið SÞ

 

Þann 25. september næstkomandi er stefnt að því að leiðtogar 193 þjóðríkja komi sér formlega saman um ný þróunarmarkmið fyrir heimsbyggðina alla, en þessum markmiðum er ætlað að taka við af Þúsaldarmarkmiðunum sem sett voru árið 2000 og gilda til ársins 2015, þ.e.a.s. til ársins í ár. Nýju markmiðin verða 17 talsins og með því að samþykkja þau heita þjóðarleiðtogarnir því að ljúka þremur brýnum verkefnum á heimsvísu fyrir árið 2030, þ.e.a.s. að binda enda á sára fátækt, vinna bug á ójöfnuði og óréttlæti og koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum.

 Það er ekki auðvelt verk að skilgreina heimsmarkmið sem leiðtogar allra þjóða geta sætt sig við. Í þessu tilviki hefur það þó sýnilega tekist því að í byrjun ágúst var orðið ljóst að leiðtogar allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna væru orðnir nógu sáttir við markmiðin til að samþykkt þeirra væri orðin formsatriði sem auðvelt verði að afgreiða á fundi leiðtoganna 25. september. Að baki liggur þrotlaus vinna fjölda fólks síðustu tvö ár. Sú vinna var ekki aðeins í höndum embættismanna, heldur átti almenningur um heim allan þess líka kost að leggja sitt af mörkum og koma með hugmyndir um brýnustu úrlausnarefnin.

 Þróunarmarkmiðin byggja á Þúsaldarmarkmiðunum og er m.a. ætlað að uppfylla það sem ekki tókst að gera á gildistíma þeirra síðarnefndu, þ.e.a.s. á árunum 2000-2015. Þróunarmarkmiðin eru þó frábrugðin Þúsaldarmarkmiðunum að ýmsu leyti, einkum þó vegna þess að þau ná ekki aðeins til þróunarríkja heldur til allra ríkja heims, svo og vegna þess að þróunarmarkmiðin hafa sjálfbæra þróun beinlínis að leiðarljósi og eru því í raun formleg sjálfbærnimarkmið fyrir heiminn allan. Markmiðin tengjast innbyrðis og því ber að líta á þau sem eina heild.

 Eins og áður segir er ætlunin að samþykkja þróunarmarkmiðin, eða með öðrum orðum hin nýju heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, á sérstökum fundi í lok september. Þessi fundur hefur hið formlega heiti Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og verður haldinn í New York 25.-27. september í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Litið er á fundinn sem mikilvæg tímamót í viðleitninni við að mjaka heimsmálunum til betri vegar. Þetta á ekki bara við um sjálfbæra þróun almennt, heldur binda menn líka vonir við að fundurinn stuðli að því að leiðtogar þjóða heims komi sér saman um metnaðarfull og bindandi markmið um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á loftslagsráðstefnunni COP-21 sem haldin verður í París í byrjun desember. 

 Það er stundum sagt að auðvelt sé að setja sér markmið en erfiðara að uppfylla þau. Þetta er auðvitað alveg rétt, en í þessu sambandi er rétt að nefna að Þróunarmarkmiðin samanstanda ekki bara af 17 loforðum, heldur fylgja mun nánari lýsingar með í pakkanum. Markmiðin 17 eru þannig nánar útfærð í 169 undirmarkmiðum. Allt er þetta svo hluti af enn stærri pakka, sem kallaður er Dagskrá til 2030 og hefur yfirskriftina Að umbreyta heiminum. Auk markmiðanna og undirmarkmiðanna er þar að finna sameiginlega framtíðarsýn, grunnreglur og fyrirheit, auk lýsinga á því hvernig vinna skuli að framfylgd markmiðanna og hvernig eigi að fylgjast með því að áætluninni sé fylgt í einstökum ríkjum, á einstökum svæðum og á heimsvísu. Dagskráin í heild skiptist í 91 grein, og markmiðin og undirmarkmiðin eru í raun bara ein grein af þeim, nánar tiltekið grein nr. 59.

 Þróunarmarkmiðin 17 eru í stuttu máli þessi:

 1. Útrýma fátækt
 2. Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og stuðla að sjálfbærum landbúnaði
 3. Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla
 4. Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að símenntun
 5. Tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt allra kvenna og stúlkna
 6. Tryggja aðgengi og sjálfbæra nýtingu á hreinu vatni og salernisaðstöðu
 7. Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði
 8. Stuðla að sjálfbærum hagvexti og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla
 9. Byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun
 10. Draga úr ójöfnuði innanlands og á milli landa
 11. Stuðla að sjálfbærum borgum og byggðum
 12. Tryggja sjálfbæra framleiðslu og neyslu
 13. Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum
 14. Vernda og nýta hafið og auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt
 15. Vernda og nýta vistkerfi á landi á sjálfbæran hátt
 16. Stuðla að friði og réttlæti fyrir alla
 17. Styrkja framkvæmd áætlunarinnar og efla hnattræna samvinnu um sjálfbæra þróun

 Markmiðin 17 og undirmarkmiðin 169 eru umfangsmeiri en svo að hægt sé að gera almennilega grein fyrir þeim öllum á 7 mínútum í einum útvarpspistli, hvað þá ef ætlunin væri að fara yfir öll atriðin sem fram koma í Dagskránni til 2030. Hins vegar er full ástæða til að hvetja fólk til að byrja strax að kynna sér þennan pakka, því að hér gildir það sama og í öðrum málum sem varða okkur öll, að leiðtogar þjóða heims geta ekki dregið vagninn einir. Þróunarmarkmiðin eru markmið okkar allra, sem við öll berum ábyrgð á að fylgt verði eftir af festu, þannig að við munum búa í betri og öruggari heimi árið 2030 en við gerum nú. Eins og fram kemur á vefsíðunni globalgoals.org, þá þurfa allir að vita um þessi markmið ef þau eiga að koma að tilætluðum notum. Ef markmiðin verða nógu vel þekkt meðal almennings, munu þau nefnilega ekki gleymast. Við gætum orðið fyrsta kynslóðin til að útrýma sárri fátækt, sú kynslóð sem beitir sér af mestri einurð gegn óréttlæti og ójöfnuði og síðasta kynslóðin sem stendur frammi fyrir ógnum vegna loftslagsbreytinga. Þetta er allt undir okkur sjálfum komið.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður