Þróun bóluefnis gegn COVID-19 gæti tekið mörg ár

12.02.2020 - 08:55
Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Yfir ellefu hundruð eru látnir af völdum kórónaveirunnar COVID-19, sem á upptök sín í Kína. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf það út í gær veiran væri helsti óvinur heimsbyggðarinnar og hvatti ríki heims til þess að berjast gegn henni.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir engar líkur á að bóluefni við veirunni sé væntanlegt. Þróun slíks bóluefnis geti tekið mörg ár.

„Það er ekki til neitt bóluefni gegn þessari kórónaveiru. Það eru að koma fréttir um það að fólk telji sig vera að koma með bóluefni í næstu viku eða eitthvað svoleiðis, en reynslan hefur sagt okkur að það gerist ekki þannig. Menn koma ekki með nýtt bóluefni  sem verður notað útbreitt á nokkrum vikum eða mánuðum. Þetta tekur mörg ár, að búa til svona bóluefni,“ sagði Þórólfur á Morgunvaktinni í morgun. 

Miklar rannsóknir þurfi að eiga sér stað til að bóluefni geti farið í umferð.

„Það þarf að kanna hvort það sé alveg öruggt, því stundum eru bóluefni þannig að þau valda miklum aukaverkunum og þá er ekki hægt að nota það. Svo verður það líka að vera virkt,“ segir hann.

Þórólfur vísar í að þegar HABL–faraldurinn braust út árið 2002 hafi vísindamenn gefið út að þeir yrðu fljótir að finna bóluefni gegn veirunni. 

„Það bóluefni er ekki ennþá komið fram. Þannig ég segi bara, já já, það væri fínt að fá einhvern tímann bóluefni. En það er ekkert sem skiptir okkur máli núna.“ 

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi