Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrotabú þriggja manna greiði 118 milljónir

12.05.2018 - 15:53
Karl Wernersson og Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, við réttarhöld í máli sérstaks saksóknara gegn þeim.
Karl Wernersson og Guðmundur Ólason. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hæstiréttur dæmdi þrotabú þriggja áhrifamanna í Milestone fyrir hrun til að greiða þrotabúi fyrirtækisins samtals 117,5 milljónir króna vegna ólöglegs láns. Þetta eru bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, aðaleigendur Milestone, og Guðmundur Ólason, framkvæmdastjóri félagsins. Þeir eru taldir ábyrgir fyrir ólöglegu láni sem Milestone veitti félagi í eigu Guðmundar til kaupa annars félags hans á hlutabréfum í dótturfélagi Milestone.

Milestone veitti Sáttum ehf, félagi í eigu Guðmundar Ólasonar, framkvæmdastjóra Milestone, lán 4. júní 2007 að verðmæti 100 milljónir króna. Lánið var veitt í evrum, svissneskum frönkum, jenum og dollurum. Hvorki voru lagðar fram tryggingar fyrir láninu né greitt af því lántökugjaldið.

Eitt félag Guðmundar fékk lán fyrir viðskiptum annars

Lánið fékk Sáttur félag Guðmundar til að greiða helming af kaupverði hlutabréfa í Askar Capital, dótturfélagi Milestone. Hlutabréfin voru keypt í nafni Lokkadísar, annars félags Guðmundar. Það var eitt af fimm félögum starfsmanna Milestone sem keyptu hlutabréf í Milestone af fyrirtækinu. Skiptastjóri Milestone taldi að lánið væri ólöglegt og krafðist endurgreiðslu. Sáttur ehf. varð gjaldþrota áður en fyrirtækið greiddi upp lánið.

Málaferlin hófust haustið 2010 og beindust gegn Karli og Steingrími Wernerssonum, aðaleigendum Mileson, Guðmundi Ólafssyni og félagi hans, Sáttum. Síðan þá hafa þeir allir verið úrskurðaðir gjaldþrota og beindist málið því gegn þrotabúum þeirra þegar það kom til kasta Hæstaréttar.

Félagið getur bara greitt 0,3 prósent af kröfum

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þrotabú Sátts ehf. geti í mesta lagi greitt 7,5 milljónir króna upp í kröfur upp á 2,26 milljarða króna. Það er um þriðjungur úr prósenti af heildarkröfum. Þar af fengi þrotabú Milestone í mesta lagi greiddar 1,2 milljónir króna upp í lánið sem Sáttur fékk.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lán eins og það sem félag Guðmundar fékk hjá Milestone geti ekki talist vera hluti af daglegum rekstri einkahlutafélags. Því hafi ekki mátt taka ákvörðun um hana án sérstakrar heimildar frá stjórn Milestone. Engin gögn liggja hins vegar fyrir um hvernig staðið var að ákvörðuninni, samkvæmt dómnum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Karl og Steingrímur hafi með beinum eða óbeinum hætti veitt Guðmundi heimild til að veita hlutafélagi sínu og félögum fjögurra annarra starfsmanna lán til hlutabréfakaupa í Askar Capital. Því beri þrotabú Karls, Steingríms og Guðmundar óskipta ábyrgð á greiðslu lánsins.