Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þrjú söfn tilnefnd til safnaverðlauna

Mynd: Ruv samsett / Ruv samsett

Þrjú söfn tilnefnd til safnaverðlauna

17.05.2018 - 16:10

Höfundar

Grasagarðurinn í Reykjavík, Listasafn Árnesinga og nýtt Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands hafa eru tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna 2018. Tilkynnt verður um sigurvegara 5. júní á Bessastöðum. Tilkynnt var um tilnefningarnar í Víðsjá á Rás 1 í dag.

Þrjú ólík söfn 

Sérstök valnefnd sem skipuð er bæði fulltrúum frá Íslandsdeild alþjóðlegu safnasamtakanna ICOM og FISOS (Félagas íslenskra safna og safnamanna) hefur farið yfir tilnefningar til verðlaunanna og valið söfnin þrjú.

Hér má lesa eilítið um söfnin þrjú og rökstuðning  valnefndar með tilnefningunum: 

Grasagarður Reykjavíkur

Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Þar er varðveittur stór hluti af íslensku háplöntuflórunni ásamt fjölbreyttu úrvali erlendra plantna. Heildarfjöldi safngripa er um 5.000, skipt í átta safndeildir. +

Mat valnefndar er að Grasagarður Reykjavíkur gefi ómetanlega innsýn í stórmerkilega flóru Íslands og sé einstakur meðal safna á Íslandi. Garðurinn er lifandi safn undir berum himni, með lifandi safngripum. Fræðsla er mikilvæg stoð í starfseminni, ásamt rannsóknum, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt samstarf.

Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga býður upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einkaog samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins.

Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og leiðandi á sínu sviði. Þar er varðveittur mikilvægur minjaauður þjóðarinnar, sem er í senn kveikja þekkingar og nýsköpunar. Nýlega opnaði safnið nýtt varðveislu- og rannsóknasetur á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði. 

Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands muni hafa afgerandi áhrif á fagleg vinnubrögð starfsmanna safna um allt land. Með því er tónninn gefinn fyrir framtíðarvarðveislu þjóðargersema.

Safnadagurinn á morgun

,,Ofurtengd söfn: Ný nálgun, nýir gestir"  er yfirskrift Alþjóðasafnadagsins í ár sem haldinn er hátíðlegur 18. maí um heim allan. Ofurtengslamyndun (e. hyperconnectivity) er hugtak sem smíðað var árið 2001 yfir þær fjölmörgu samskiptaleiðir sem við búum yfir í dag, svo sem samskipti í eigin persónu, tölvupóst, netspjall, síma og net. Þetta alheimssamskiptanet verður flóknara, fjölbreyttara og samtengdara með hverjum deginum sem líður.

Íslandsdeild ICOM og FÍSOS hvetja söfn til að taka undir með yfirskrift alþjóðlega safnadagsins með því að vekja athygli á þeim verkefnum sínum sem falla undir þemað og með því að vera sýnileg á vef safnana og á samfélagsmiðlum. Þátttakendur er hvattir til að merka myndir og færslur með myllumerkinu  #safnadagurinn og #MuseumDay á instagram, twitter og facebook.