Mynd: Fréttir

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Þrjú snjóflóð fallið það sem af er degi
11.12.2019 - 15:23
Mikil snjókoma á norðanverðu landinu hefur fylgt vonskuveðrinu sem nú gengur yfir. Snjóflóðahætta er töluverð. Þrjú snjóflóð hafa þegar fallið það sem af er degi, tvö í Súðavíkurhlíð og eitt í Langdal. Líklegt er að fleiri eigi eftir að finnast þegar vegir opna á ný og veðri slotar. Ófært er á svæðunum og því er ekki talin hætta á að nokkur hafi lent í flóðunum.
Snjóflóð féll á veginn í Langadal í Húnavatnssýslu norðan við brúna yfir Svartá í morgun. Flóðið var um fimmtíu metrar að breidd og tveggja metra djúpt. Tvö svipað stór flóð féllu á veginn við Súðavíkurhlíð.
Súðavíkurhlíðinni var lokað vegna veðurs og snjóflóðahættu. Þá er vegurinn í Langadal lokaður vegna veðurs líkt og flestir vegir á Norðurlandi.
Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi er enn í gildi og verður fram eftir degi. Þá er mikil hætta á snjóflóði á utanverðum Tröllaskaga og töluverð hætta á norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum.