Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þrjú smit í Skagafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Eydis O. Indriðadóttir - RÚV
Þrjú smit af kórónuveirunni hafa verið staðfest í Skagafirði. 22 eru smitaðir á Norðurlandi vestra og 396 í sóttkví. Engin ný smit hafa greinst í Húnaþingi vestra síðan fyrir helgi.

3 smit voru greind í Skagafirði um helgina. Uppruni smita er sagður utan héraðsins. Smitrakningu er lokið og hafa tengdir aðilar verið settir í sóttkví. Þetta kemur fram á Feykir.is

Þokast í rétta átt

Í heildina eru 22 smit á Norðurlandi vestra. 19 eru í Húnaþingi vestra þar sem gripið var til hertra sóttvarnaraðgerða í sveitarfélaginu vegna gruns um víðtækt smit. Aðeins einn mátti þá fara af heimili til að afla aðfanga og ekki máttu fleiri en fimm manns koma saman. Úrvinnslusóttkvínni var aflétt fyrir helgi og ekki hafa greinst ný smit síðan þá.

Stefán Vagn Stefánsson hjá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra segir ekki hægt að lesa annað úr stöðunni en að sú sóttkví hafi skilað árangri og að þau hafi náð utan um verkefnið. Þá verði sóttkví þeirra sem tengjast Grunnskólanum á Hvammstanga aflétt í kvöld þannig að ástandið sé aðeins að léttast.