Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrjú fyrirtæki sýna Rio Tinto áhuga

04.07.2019 - 16:37
Erlent · Innlent · álver · Viðskipti
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Að minnsta kosti þrjú fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að kaupa eignir Rio Tinto á Íslandi, í Svíþjóð og í Hollandi, segja heimildarmenn New York Times. Kaupverðið nemur allt að 350 milljónum bandaríkjadala, eða 44 milljörðum íslenskra króna, að því er segir í fréttinni.

Fyrirtækin sem um ræðir eru hrávörurisinn Glencore, sem hyggst kaupa allt að þrjár milljónir tonna af áli um heim allan, þýski álframleiðandinn Trimet Aluminium og breska fyrirtækið Liberty House. 

Rio Tinto hóf söluferli á eignunum á ný seint í fyrra, með hjálp franska fjárfestingabankans Natixis, eftir að álrisinn Norsk Hydro hætti við kaup á eignunum. Norsk Hydro kenndi töfum á svörum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um það að ekkert varð af kaupunum, en mögulegt er að framkvæmdastjórnin hafi haft áhyggjur af samkeppnisáhrifum af kaupunum, segir í fréttinni.

Auk álversins í Straumsvík er til sölu 50 prósenta hlutur í sænsku álflúoríðverksmiðjunni Alufluor AB og 53 prósenta hlutur í hollensku skautverksmiðjunni Aluminium & Chemie Rotterdam. 

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi segir að þau hafi ekkert um málið að segja enda sé á ferðinni nafnlaus frétt frá New York Times sem birtist án allra heimilda. Það sé stefna fyrirtækisins að tjá sig ekki um slíkan orðróm. Aðspurður vildi Bjarni ekki tjá sig um hvort eitthvað væri hæft í umfjölluninni. 

Í frétt New York Times segir að kaup á álverinu gætu verið aðlaðandi fyrir námufyrirtæki þar sem viðskiptavinir og fjárfestar leggi nú mikla áherslu á sjálfbærni og umhverfisvæna framleiðslu. Auk þess sé orka framleidd með hagkvæmari hætti hér á landi en víða annars staðar. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn