Önnu Guðjónsdóttur var boðið að vinna með A-salinn í Hafnarhúsinu en Listasafn Reykjavíkur hefur undanfarin ár boðið listamönnum að takast á við salinn með nýjum innsetningum. Arkítektúr salarins einkennist af voldugum súlum hins gamla vöruhúss og stórum gluggum sem fylla upp í gömlu hleðsludyrnar. Útfærsla Önnu er strúktúr úr járngrindum sem býr til rythma og fjarlægð í salinn, skapar mikla tilfinningu fyrir þrívídd og sjónhverfingar þannig að gesturinn heldur nánast fyrst að um speglasal sé að ræða. Fyrir vikið er eins og þeir sem standi innar í salnum minnki vegna áhrifa innsetningarinnar.