Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þrír snarpir skjálftar skóku Mýrdalsjökul

14.07.2016 - 03:12
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Þrír snarpir jarðskjálftar, sá stærsti þeirra 3,6 að stærð, urðu í sunnanverðri Kötluöskju undir Mýrdalsjökli á tólfta tímanum í gærkvöldi. Hinir tveir voru einnig um eða yfir 3 að stærð. Hrina minni skjálfta fylgdi í kjölfarið. Hulda Rós Helgadóttir, sérfræðingur í náttúruvá á Veðurstofu Íslands, segir hrinunni hafa slotað um hálf eitt í nótt og allt verið rólegt síðan. Í samtali við fréttastofu sagði Hulda að Mýrdalsjökull hefði verið frekar virkur að undanförnu.

Lítið hlaup varð nýlega í kötlum Entujökuls, sem gengur út úr Mýrdalsjöklinum norðvestanverðum, og rann jarðhitavatn út í Fremri Emstruá og þaðan í Markarfljót. Talið er að hlaupið hafi byrjað 7. júlí, og það er fyrst núna sem aftur er farið að minnka í fljótinu, að sögn Huldu.

„Þetta var alls ekki stórt hlaup, en brennisteinslyktin kom upp um það þegar hún byrjaði að finnast skömmu síðar,“ segir Hulda, „og þessu fylgdi eilítið hækkuð rafleiðni.“ Hún segir of snemmt að fullyrða nokkuð um hvort og þá hvað megi lesa út úr hrinu gærkvöldsins, fyrst þurfi að fara betur yfir gögnin. „En við fylgjumst vel með framvindunni og vöktum árnar sem renna undan Mýrdalsjökli,“ segir Hulda. 

*Uppfært kl. 10:23. 
Jarðskjálftarnir sem mældust í Kötlu í gærkvöld voru ekki eins öflugir og talið var í fyrstu. Stærsti skjálftinn mældist 3,1 að stærð en alls mældust 25 skjálftar í hrinunni frá því klukkan sjö í gærkvöld til miðnættis.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að ástæða ofmatsins sé sú að mjög stuttur tími leið á milli þeirra og því fluttist orka milli skjálfta. Nánari yfirferð sérfræðinga Veðurstofunnar leiddi í ljós að stærsti skjálftinn varð kl:23:06 í gærkvöld, 3,1 að stærð. Skjálftinn kl. 23:05 mældist 2,7 og kl. 23:07 mældist skjálftinn 2,8. Í tilkynningunni segir að erfitt geti reynst að meta stærð stærstu skjálftanna í hrinunni þegar svona stuttur tími er á milli þeirra. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV