Þrír metrar skilja að Fnjóskadal og Eyjafjörð

26.04.2017 - 12:01
Mynd: RÚV / Rögnvaldur Már Helgason
Þrír metrar af bergi skilja nú að eystri og vestari hluta Vaðlaheiðarganga. Síðasta sprengjan verður sprengd á föstudag við athöfn, enda um að ræða ákveðin þáttaskil í þessari ferð í gegn um fjallið, sem hefur sannarlega ekki gengið áfallalaust.

Heitt vatn, kalt vatn og setlög

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir verkefnið hafa orðið mun stærra og erfiðara heldur en búist var við í fyrstu. Skrifað var undir útboð árið  2011, gangagerðin sjálf hófst um mitt ár 2013 og ári síðar kom verktakinn á heitavatnsæð sem sprautaði 350 lítrum á sekúndu af 46 gráðu heitu vatni inn í göngin. Og þar með er ekki öll sagan sögð. Eftir heitavatnsæðina var hafist handa við gröft Fnjóskadalsmegin. Ekki leið á löngu þar til það hrundi úr misgengi og fylltust þá göngin af hrunefni og köldu vatni í kjölfarið. Þá hættu framkvæmdir í einhvern tíma. Í nóvember síðastliðnum lentu gangamenn á seti, sem er þriðja áfallið í framkvæmdinni. Set er mjög veikburða berg sem stendur ekki undir sjálfu sér og í svoleiðis kafla þarf að fara hægt í gegn og styrkja mikið. En nú verður brátt hægt að sjá ljós í enda ganganna, en til stendur að opna þau í ágúst á næsta ári. 

Kraftgallar eða berir að ofan

Starfsmannavelta hefur verið mikil í Vaðlaheiðargöngum og vinna þar nú nær eingöngu útlendingar, flestir frá Króatíu. Aðstæður eru mjög erfiðar, en þar sem er heitast er um 30 gráðu heitt og mikill raki. Fnjóskadalsmegin er svo aftur mjög kalt, þannig að menn eru ýmist afar léttklæddir, jafnvel berir að ofan, eða í Kraftgalla með húfu og vettlinga.

Ómönnuð gjaldtaka

Þá verður gjaldtökunni í göngunum háttað þannig að skynjari nemur bílnúmer og hægt verður að borga með appi eða eftir á. Enginn verður til að rukka ökumenn, eins og er til dæmis í Hvalfjarðargöngunum. Valgeir segir mannaða gjaldtöku vera að detta út á heimsvísu. 

Hlusta má á viðtal Sunnu Valgerðardóttur við Valgeir á Morgunvaktinni á Rás 1 hér að ofan.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi