Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrír menn ákærðir fyrir njósnir í Danmörku

03.02.2020 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: needpix
Þrír menn hafa verið handteknir í Danmörku, grunaðir um njósnir fyrir leyniþjónustu Sádi Arabíu.

Mennirnir eru leiðtogar ASMLA hreyfingarinnar, sem er arabísk þjóðernishreyfing sem berst fyrir sjálfstæðu arabísku ríki í Khuzestan héraði í Íran. Írönsk stjórnvöld skilgreina hreyfinguna sem hryðjuverkasamtök.

Þetta kom fram á blaðamannafundi dönsku leyniþjónustunnar fyrir stundu.

Finn Borch Andersen, yfirmaður PET, dönsku leyniþjónustunnar, sagði á fundinum að mennirnir væru ákærðir fyrir að hafa stundað njósnir í þágu sádiarabískra stjórnvalda frá 2012 til 2018.

Mál þessara þriggja manna tengist máli frá 2018, en PET telur að í september það ár hafi leyniþjónusta Íran skipulagt morð á írönskum ríkisborgara sem býr í Danmörku.

Andersen sagði að málið væri afar flókið og að ljóst væri að deilur stjórnvalda Írans og Sádi Arabíu hefðu nú teygt sig til Danmerkur. 

Málið teygir anga sína til Hollands en leyniþjónustan þar í landi hefur í dag handtekið fólk, en ekki liggur fyrir hverja eða hversu marga.

Fréttin verður uppfærð. 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV