Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrír látnir í umferðarslysi á Skeiðarársandi

27.12.2018 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrír létust í alvarlegu umferðarslysi á tíunda tímanum í morgun þegar bíll fór fram af brúnni yfir Núpsvötn. Sjö voru í bílnum og samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi eru minnst þrír alvarlega slasaðir.

Í tillkynningu frá lögreglu segir að neyðarlínu hafi borist tilkynning klukkan 09:42 í morgun um að bifreið hefði verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn. Bíllinn fór í gegnum vegriðið og niður á áraurana fyrir neðan. Björgunarlið frá nálægu þéttbýli væri komið á vettvang og fleiri á leiðinni. Þar á meðal tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar.

Stjórnstöð almannavarna á Suðurlandi hefur verið virkjuð í björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi. Suðurlandsvegur er lokaður og ljóst að svo verður eitthvað fram eftir degi vegna vinnu við björgun og rannsókn.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér fyrr í morgun kemur fram að fjórir hafi látist. Samkvæmt upplýsingum sem síðar bárust frá lögreglu eru þrír látnir. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV