Þrír kettir eða Land Cruiser ?

Mynd með færslu
 Mynd:

Þrír kettir eða Land Cruiser ?

25.11.2013 - 14:44
Gæludýr eru oftast nær gleðigjafi eigenda sinna og myndast sterk bönd á milli. En gæludýrum fylgja umhverfisáhrif rétt eins og mannfólkinu. Og þau umhverfisáhrif þarf að hafa í huga og reyna að draga úr eins og hægt er. Stefán Gíslason fjallar um gæludýr í umhverfislegu tilliti í Sjónmáli í dag.

Hann segir vistspor meðalhunds nokkuð hátt, og að umhverfisáhrif Land Cruiser jeppa séu svipuð og þriggja katta.

Sjónmál  mánudaginn 25. nóvember 2013 

--------------------------------------------------------------------  

Gæludýr

Öll höfum við einhver neikvæð áhrif á umhverfið með neyslu okkar. Í því
sambandi er oft talað um þrjá þætti, þ.e.a.s. ferðalögin, matinn og húsnæðið,
eða „bilen, biffen och bostaden“ eins
og sagt  er í Svíaríki. En hér kemur
fleira til. Eitt af því eru gæludýrin okkar. Þau þurfa líka sitt af takmörkuðum
auðlindum jarðar.

Í bókinni State of the World 2012
er að finna greinargott yfirlit yfir áhrif gæludýra á umhverfið. Þar kemur m.a.
fram að í Bandaríkjunum sé um 61 milljón hunda og 76,5 milljónir katta. Ég hef
ekki séð nákvæmar tölur um fjölda hunda og katta á Íslandi, en ef við notum
höfðatöluregluna, sem er sérstaklega auðvelt þegar Bandaríkin eiga í hlut, af því
að þar eru íbúar rétt um þúsund sinnum fleiri en á Íslandi, þá mætti ætla að
hér væru um 60 þúsund hundar og 75 þúsund kettir. Tölur um fjölda skráðra hunda
í fjölmennustu sveitarfélögunum á Íslandi benda hins vegar til að
meðal-Íslendingurinn sé ekki næstum eins stórtækur í gæludýrahaldi og
meðal-Bandaríkjamaðurinn. Hér lætur nærri að fjöldi skráðra hunda sé um 30 á
hverja 1.000 íbúa. Sumir segja að annar eins fjöldi hunda sé óskráður, sem
myndi þá þýða að heildarfjöldinn væri nálægt 60 á hverja 1.000 íbúa. Samkvæmt
því gæti heildarfjöldi hunda á Íslandi slagað í 20.000 stykki, en þá tölu sel
ég ekki dýrar en ég keypti. Og kattafjöldinn er enn óútreiknanlegri, rétt eins
og kettirnir sjálfir.

En svo ég snúi mér aftur að umfjöllun State of the World um umhverfisáhrif gæludýra, þá er þar áætlað að gæludýr
Bandaríkjamanna hafi álíka mikil áhrif á umhverfið og allir íbúar Kúbu og Haítí
samanlagt. Ef við snúum tölum sem þar liggja að baki upp á íslenskan veruleika
er ekki fjarri lagi að ætla að hvert íslenskt mannsbarn noti álíka mikið af
auðlindum jarðar og 15 meðalhundar. Og ef að hundarnir á Íslandi eru 20 þúsund,
þá er neysla þeirra samkvæmt þessu álíka mikil og neysla allra íbúa í 1.350
manna bæjarfélagi. En allt er þetta byggt á ágiskunum, og svo er hundar
auðvitað misfrekir á auðlindir. Dæmigerður þéttbýlishundur sem lifir eingöngu á
keyptum hundamat og notar mikið af öðrum vörum og þjónustu, svo sem hundaföt,
leikföng, heilbrigðisþjónustu af ýmsu tagi og lyf, er t.d væntanlega mun
auðlindafrekari en sveitahundurinn sem lifir á afgöngum og hefur ekki vanist
nútíma gæludýradekri. Þarna er því erfitt að alhæfa.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að umhverfisáhrif
gæludýra ráðast ekki bara af því hversu mikið þau nota af fóðri og þjónustu.
Dýrin geta líka haft bein neikvæð áhrif á villta náttúru, og má í því sambandi
nefna áhrif heimiliskatta á fuglalíf. Svo má heldur ekki gleyma því að gæludýr
geta haft ýmis jákvæð áhrif, ef ekki á umhverfið þá á heilsu og vellíðan
eigendanna. Heimurinn er ekki svarthvítur, hvorki í þessum efnum né öðrum.

Í bókinni „Time to eat the Dog“, sem kom út árið 2009, komust
höfundarnir Robert og Brenda Vale við Viktoríuháskólann i Wellington á
Nýja-Sjálandi að þeirri niðurstöðu að vistspor meðalhunds sé um 0,84
jarðhektarar á ári. Til samanburðar má nefna að vistspor 4,6 lítra
Landcruiserjeppa sem er keyrður 10.000 km á ári reiknast vera 0,41 jarðhektari
þegar búið er að taka tillit til eldsneytisins og þeirra auðlinda sem þarf til
að framleiða jeppann. Umhverfisáhrif hundsins eru samkvæmt þessu tvöfalt meiri
en umhverfisáhrif jeppans. Stærstu hundarnir fara nálægt því að þrefalda
vistspor jeppans. Þannig reiknast vistspor Schaefferhunds vera 1,1 jarðhektari
á ári. Hins vegar þarf hver köttur ekki nema um 0,15 jarðhektara, þannig að
maður getur sem best átt þrjá ketti í staðinn fyrir einn Landcruiser.

Ekki veit ég hvað hinn venjulegi íslenski hundaeigandi eyðir miklum
peningum í hundinn sinn á lífsleið þess síðarnefnda, en tölurnar frá Ameríku
liggja á bilinu 4.000-100.000 dollarar á ævi hundsins. Samsvarandi fjárhæð í
íslenskum krónum er allt frá hálfri milljón upp í 12 milljónir. Vitað er að
gæludýrafóður er selt fyrir um 42 milljarða Bandaríkjadala í heiminum á hverju
ári, en það samsvarar rúmlega 5.000 milljörðum íslenskra króna, eða rétt um
9-földum fjárlögum íslenska ríkisins. Það má auðvitað deila um hvort þetta sé
mikið eða lítið, en til að setja töluna í eitthvert samhengi, þá er þetta um
þriðjungur af þeirri fjárhæð sem varið er í þróunaraðstoð í heiminum árlega.

Gæludýraiðnaðurinn hefur beitt sér mjög fyrir auknu gæludýrahaldi enda
miklir hagsmunir í húfi. Gæludýrum hefur líka fjölgað gríðarlega á síðustu
árum. Á Íslandi virðist árleg fjölgun til dæmis vera um 8% og í Kína er
fjölgunin svo ör að borgaryfirvöld í Shanghai hafa samþykkt sérstaka „einsgæludýrsstefnu“
eða „one pet policy“, til að bregðast við aðkallandi vandamálum samfara auknu
hundahaldi.

Á tímum þverrandi auðlinda er nauðsynlegt að halda fjölgun gæludýra í
skefjum ekki síður en fjölgun mannkyns, þó að vissulega muni meiru um mannsbarnið
en hvolpinn í neysluæðinu. Höfundur samantektarinnar í State of the World bendir á nokkrar leiðir til að stemma stigu við
fjölguninni. Þannig ætti að gelda tímanlega þau gæludýr sem ekki eru ætluð til
undaneldis og taka að sér gæludýr úr dýraathvörfum frekar en að kaupa ný dýr af
ræktendum. Þá ættu yfirvöld á hverjum stað að líta á gæludýr sem munað og haga
skattlagningu í samræmi við það, annað hvort með því að hækka leyfisgjöld eða
skatta á gæludýrafóður. Þá sé ástæða til að hafa betri stjórn á gæludýraiðnaðinum,
sem gangi mjög langt í því að „manneskjuvæða“ gæludýr til að stuðla að aukinni
neyslu. Loks sé nauðsynlegt að gæludýraeigendur og börnin þeirra, þ.e.a.s.
gæludýraeigendur framtíðarinnar, kynni sér raunveruleg umhverfisáhrif
gæludýrahalds. Aukin fræðsla um þessi mál geti dregið úr óþörfum kostnaði og
ofneyslu, en í samantektinni er m.a. bent á að offita sé orðin algengt vandamál
hjá gæludýrum, einfaldlega vegna þess að þau séu ofalin. Þá sé ýmis þjónustu
við ævilok gæludýra sums staðar á Vesturlöndum orðin umfangsmeiri en fólk í
þróunarlöndunum á kost á fyrir sjálft sig. Að síðustu er fólk hvatt til að
halda frekar gæludýr sem gefa af sér áþreifanlegar afurðir, til dæmis hænsni
eða geitur. Eins sé upplagt að líta á dýrahald sem samfélagslegt verkefni, til
dæmis þannig að dýrin séu sameign nágranna.

Sem dæmi um samfélagslegt verkefni og gæludýr sem skila áþreifanlegum
afurðum má nefna að á dönsku eyjunni Samsø hafa hópar íbúa tekið sig saman um
stofnun hænsnafélaga. Þetta er liður í stöðugri viðleitni sveitarfélagsins til
að stuðla að sjálfbærri þróun. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 10 heimili standi að
hverju hænsnafélagi, og ef verkefnið gengur eins og að er stefnt munu umrædd
hænsni nýta allan grænmetisúrgang sem fellur til á heimilum á eynni, auk þess
sem þau skaffa eyjarskeggjum egg, kjúklingakjöt og áburð. Um leið er þetta vel
til þess fallið að efla samstöðu íbúanna og stuðla að breyttu hegðunarmynstri.