Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrír fluttir með þyrlu og sjö með sjúkrabíl

19.11.2017 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd: Daði Jörgensson
Þrír farþegar úr rútu sem fór á hliðina á sunnanverðu Snæfellsnesi á sjötta tímanum í dag voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á spítala í Reykjavík. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu alvarleg meiðsl þeirra eru. Verið er að flytja sjö til viðbótar með sjúkrabílum á Akranes. Þeir eru minna meiddir.

Um 20 manns voru í rútunni, bílstjóri og erlendir ferðamenn. Slysið varð við afleggjarann að Kálfárvöllum, skammt vestan við Lýsuhól, klukkan 17.28. Flughált var á veginum og vonskuveður. Sjúkrabílar, tækjabílar, lögregla, björgunarsveitir og þyrla fóru á vettvang og hópslysaáætlun almannavarna var virkjuð.

Fólkið var í fyrstu allt flutt á Lýsuhól, þar sem komið var upp eins konar fjöldahjálparstöð, áður en farið var að flytja það ýmist til Reykjavíkur eða á Akranes. Önnur rúta var send eftir þeim óslösuðu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir