Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír flokkar hnífjafnir á Írlandi

08.02.2020 - 23:09
epa08202624 A dog waits for its owner outside a polling station during general elections in Dublin, Ireland, 08 February 2020.  EPA-EFE/AIDAN CRAWLEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sáralitlu munar á fylgi þriggja stærstu stjórnmálaflokka Írlands, samkvæmt útgönguspá sem birt var skömmu eftir lokun kjörstaða í kvöld, og raunar er munurinn langt innan skekkjumarka. Allir fengu þeir rúmlega 22 prósent atkvæða í þingkosningunum sem fram fóru í dag.

Öfugt við fyrri spár er það stjórnarflokkur Leos Varadkars, Fine Gael, sem kemur best út úr útgönguspánni með 22,4 prósent atkvæða, næst kemur Sinn Féin með 22,3 prósent og svo Fianna Fáil með 22,2 prósent atkvæða. Skekkjumörk eru 1,3 prósent, en við gerð spárinnar var rætt við um 5.000 kjósendur á leið út af kjörstöðum víða um land. Talning atkvæða hefst klukkan níu í fyrramálið.

Erfið stjórnarmyndun framundan

Pat Leahy, stjórnmálaskýrandi The Irish Times, segir þetta einstök kosningaúrslit. Í viðtali við írska sjónvarpi RTE sagði Leahy að gangi útgönguspáin eftir, þá muni það reynast þrautin þyngri að mynda nýja ríkisstjórn ef flokkarnir standa við öll stóru orðin úr kosningabaráttunni. Bæði Fine Gael og Fianna Fáil, sem skipst hafa á um að fara með völdin í landinu, lýstu því yfir í aðdraganda kosninganna að samstarf við Sinn Féin væri útilokað.