Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þriðjungur sagt upp á krabbameinsdeild

19.06.2015 - 19:14
Mynd: rúv / rúv
Fjölmargir hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum á Landspítalanum í dag, á kvenréttindadaginn. Meira en 150 starfsmenn spítalans hafa sagt upp eftir að verkfall þeirra var stöðvað með lögum.

Minnst 125 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á Landspítalanum undanfarna daga. Heildarfjöldi þeirra liggur þó ekki fyrir fyrr en eftir helgi, en samkvæmt heimildum fréttastofu bárust fjölmörg uppsagnarbréf eftir að skrifstofa spítalans lokaði á hádegi í dag.

Á krabbameinslækningadeild 11E, hafa 8 hjúkrunarfræðingar af 23 sagt upp. Ein þeirra er Steinunn Helga Sigurðardóttir, sem hefur unnið á deildinni í fimm ár. Hún segir að álagið á deildinni hafi verið mikið fyrir, en ljóst sé að deildin verði ekki starfhæf eftir að uppsagnirnar taka gildi. „Það er einn þriðji sem er búinn að segja upp, og deildin starfar ekki þannig,“ segir Steinunn.

Margir búnir að fá nóg
Steinunn segir það hafa verið sárt og erfitt að taka þessa ákvörðun. „Mér finnst þetta rosalega erfitt, út af því að mig langar ekkert að hætta, og mér þykir ótrúlega gaman að mæta í vinnuna, og þetta er gefandi starf, en það er ekki hægt að lifa af þeim launum sem við erum að fá, þannig að ég sé engan annan kost í stöðunni en að segja starfi mínu lausu, og þá annað hvort leita á önnur mið eða skipta algjörlega um starfsferil.“

Hún segist þó vona að samningar náist. „Ég vona innilega að ég hafi tök á því að draga uppsögnina til baka, ef við fáum eitthvað tilboð, en ég veit samt um fullt af hjúkrunarfræðingum sem að eru bara búnir að fá nóg, og ætla að segja upp þó að það komi eitthvað gott tilboð.“

Erfitt að fagna kvennabaráttunni í dag
Tugir hjúkrunarfræðinga skiluðu inn uppsagnarbréfi í dag, á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi. „Mér finnst þetta eiginlega bara rosalega sorglegur dagur, í dag, vegna þess að bara fimm dögum áður eru sett lög á stærstu kvennastétt landsins. Og mér finnst dálítil hræsni að vera fagna 100 ára afmæli kvennabaráttunnar í dag, vegna þess að þetta er bara enginn hátíðisdagur, ekki í dag,“ segir Steinunn.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV