Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þriðjungur kennara í Dalskóla hefur sagt upp

17.11.2016 - 19:15
Mynd: RÚV / RÚV
Þriðjungur kennara í Dalskóla í Reykjavík hefur sagt upp störfum í vikunni. Allir kennarar skólans, nema þrír, hafa ákveðið að gera slíkt hið sama, fái kennarar ekki verulegar launahækkanir. Kennari sem sagði upp störfum segir vonleysið algjört.

Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir frá því í júní og deila þeirra er komin inn á borð ríkissáttasemjara. Þriðji fundur í deilunni var í dag. Rúmlega eitt þúsund grunnskólakennarar mættu á samstöðufund í Háskólabíói á þriðjudaginn, til að mótmæla bágum kjörum. Mikill hiti var í fundarmönnum, sem margir hverjir töluðu um að grípa til aðgerða. Nú hafa kennarar í Dalskóla í Úlfarsárdal í Reykjavík riðið á vaðið og ákveðið að grípa til róttækra aðgerða.

„Við héldum fund og af 18 kennurum í skólanum hyggjast 15 segja upp.  Og sex eru þegar búnir að segja upp,“ segir Ásta Bárðardóttir, kennari í Dalskóla, sem var ein þeirra sem sögðu upp. Uppsagnirnar skiluðu sér allar í vikunni og taka gildi 1. desember. Kennararnir hætta því störfum þremur mánuðum síðar, 1. mars.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun. Og gerð með sorg í hjarta. En mér er bara alveg nóg boðið. Þetta eru smánarleg laun sem við erum að fá. Í kringum 300.000 krónur útborgaðar á mánuði. Og það er bara alltof lítið fyrir þetta mikla og mikilvæga og ábyrgðarfulla starf. Og fyrir mig þarf að koma til verulegrar hækkunar svo ég íhugi að koma til baka,“ segir Ásta.

En heldurðu að eitthvað breytist hjá þér ef menn ná góðum samningum?

„Já það gæti vel gerst að maður dragi uppsögnina til baka ef við fáum góða samninga. Ekki spurning.“

Eruð þið að skapa þrýsting á samninganefndir með þessum aðgerðum?

„Já ég vona það.“

Uppsagnarbréf í vasanum

Bryndís Jónasdóttir er einnig kennari í Dalskóla. Hún hefur ekki sagt upp störfum, en er ein þeirra sem hefur tekið ákvörðun um að gera það, verði ekki miklar breytingar.

„Það eru einhverjir að bíða eftir að heyra eitthvað frá okkar samninganefnd,“ segir Bryndís.

Og eru menn komnir með uppsagnarbréf í vasann?

„Já. Ég sjálf geng um með eitt í vasanum og hef heyrt að aðrir geri það líka. “

Hvaða afleiðingar haldið þið að svona uppsagnir geti haft fyrir skólann?

„Það yrðu gríðarlega alvarlegar afleiðingar sem það hefði. Að manna skóla er mikið verk og ég er bara hrædd um að það muni ganga illa og að það muni koma niður á að halda uppi eðlilegu skólastarfi í einhvern tíma,“ segir Bryndís.

Ásta segir að það hafi verið sérstaklega erfitt að segja upp vegna barnanna.

„En við kennarar verðum bara að standa saman núna. Það er bara nú eða aldrei. Þetta er búin að vera endalaus kjarabarátta hjá okkur. Og við erum orðin svo þreytt. Og þetta er orðið svo mikið vonleysi að það verður bara eitthvað að gerast núna.“