Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þriðjungur eldri en 60 ára kýs X-D

Frá síðustu leiðtogaumræðum. - Mynd:  / 
Fylgi Sjálfstæðisflokksins virðist vera lang mest meðal 60 ára og eldri samkvæmt síðustu könnun Gallup. Fylgi flokksins í þessum aldurshópi mælist yfir 30 af hundraði. Píratar sækja hins vegar mesta fylgið til kjósenda yngir en 40 ára. Í þessum aldurshópum mælist fylgið yfir 25%.

Í könnun Gallups  sem birt var á fimmtudaginn og gerð var dagana 3. til 12. október mældist Sjálfstæðisflokkur stærstur með tæplega 23% fylgi og Samfylkingin minnst flokka sem ná manni á þing með 7%. Næst stærsti flokkurinn voru Píratar með rúm 18% og næst minnsti flokkurinn var Björt framtíð. Framsóknarflokkurinn var með tæp 10% og Viðreisn með rösk 12%  En hvernig skiptist áhugi kjósenda á flokkunum eftir aldurshópum? Gallup hefur rýnt í tölurnar og skipt kjósendum eða þeim sem svöruðu í fimm aldurshópa. Yngri en 30 ára, 30 til 39 ára, 40 til 49 ára, 50 til 59 ára og loks 60 ára og eldri.  Út frá þessari flokkun er hægt að sjá hvert fylgi flokkanna er í hverjum aldurshópi.

Píratar stærstir undir 30 ára

Byrjum á þeim sem eru yngri 30 ára. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að vikmörk geta verið yfir 5 prósentustigum en tölurnar gefa samt sem áður vísbendingar um stöðu flokkanna í aldurshópunum og hvert þeir sækja fylgi sitt. Píratar eru stærstir  í þessum hópi með yfir 25 af hundraði og talsvert yfir heildarfylginu sem mældist rúm 18%. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næstur með rúmlega 18 prósenta fylgi er því 4 prósentustigum undir heildarfylginu sem var 22.6% í könnun Gallups. Samfylkingin er með 5 prósent eða tveimur prósentustigum undir heildarfylginu. Framsóknarflokkurinn er með 7,8 prósenta fylgi sem er tveimur prósentustigum fyrir neðan heildarfylgið í könnuninni.  Viðreisn með 15 af hundraði eða 2,5 prósentustigum yfir heildarfylginu og VG með 14,5 eða það saman og flokkurinn fær í heild samkvæmt könnun Gallups

VG næst stærst 30-39 ára

Í aldurshópnum 30 til 39 ára eru Píratar áfram stærsti flokkurinn með yfir 26 % fylgi. Næst mesta fylgi fengju Vinstri grænir með 18% og í þriðja sæti er nú Viðreisn með 14 af hundraði og Sjálfstæðisflokkur í fjórða sæti með 13% Minnsta fylgið fær Framsóknarflokkur með 6,5% og næst minnsti flokkurinn er Samfylkingin með 7,2% eða nálægt heildarfylginu.  Björt framtíð mælist með 9,5% eða  um tveimur prósentustigum yfir heildarfylginu.

Viðreisn annar stærsti flokkurinn 40-49 ára

Í aldurshópnum 40 til 49 ára sígur á ágæfuhliðina hjá Pírötum sem mælast í þessum hópi sem þriðji stærsti flokkurinn með rösk 14 %. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstu með 24% og Viðreisn í öðru sæti með15,3%. VG og Framsókn eru með svipað fylgi rösk 11%. Björt framtíð með tæp 11% sem er jafnframt mesta fylgið sem þeir fá í einstaka aldurshópi. Samfylkingin er með tæp 7%.

Píratar 12% 50-59 ára

Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærsti flokkurinn í  hópi kjósenda á aldrinum 50 til 59 ára með tæp 24%. Næstir eru Vinstri grænir með 14 og hálft prósent og fast á hæla þeim kemur Viðreisn með rétt rúm 14%. Píratar eru komnir niður í rösk 12% í þessum aldurshópi. Minnst mælist Björt framtíð með 6,7% og næst minnst er Samfylkingin með 7,6% og  Framsókn mælist með 9,4%.

Sjálfstæðisflokkur lang stærstur yfir 60 ára

Talsverðar breytingar verða meðal viðhorfa kjósenda þegar litið er á hópinn eldri en 60 ára. Sjálfstæðisflokkur á mestu fylgi að fanga meðal þessa hóps með yfir 30% fylgi. Vinstri grænir og Píratar eru með svipað fylgi, VG með rétt tæp 14% og Píratar með rúm 13. Framsóknarflokkurinn er í fjórða sæti með 12,6%. Fylgi Viðreisnar hrapar hins vegar. Er næst minnst með um 7 af hundraði. Björt framtíð minnst með tæp 5%. Samfylkingin með rúm átta prósent.

Framsóknarflokkurinn er með mest fylgi meðal sinna kjósenda í aldurshópunum 40 til 49 ára og eldri en 60 ára. Sjálfstæðisflokkurinn sækir mesta fylgið meðal eldri en 60 ára og er með fjórðungsfylgi meðal kjósenda á aldrinum 40 til 59 ára. Fylgi Samfylkingarinnar er mest meðal eldri en 60 ára og næst mest meðal 50 ára upp að 60 ára aldrinum. Vinstri grænir sækja mesta af sínu fylgi í aldurshópinn 30 til 39 ára. Björt framtíð sitt í hópana á aldrinum 30 upp í 50 ár. Píratar eru stærstir  meðal yngstu hópanna, með um fjórðungs fylgi meðal yngri en 30 ára og líka frá 30 upp í 40 ár. Fylgi Viðreinsar er hins vegar nokkuð jafnt í öllum aldurshópunum , um 14 til 15% en fellur niður í tæp 7 % þegar kemur að kjósendum eldri en 60 ára.

 

 

 

 

 

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV