Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þriðjungur barna glímir við næringarvanda

15.10.2019 - 03:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þriðjungur þeirra 700 milljón barna í heiminum sem eru undir fimm ára aldri er annað hvort vannærður eða of þungur, sem getur valdið þeim heilsufarsvandamálum langt fram á fullorðinsár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálparsjóði Sameinuðu þjóðanna. 

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, segir hiemsbyggðina vera að missa tökin í baráttunni fyrir heilbrigðu mataræði. Vandamál sem eitt sinn voru hvort á sínum endanum eftir auði ríkja mætast nú í fátækari ríkjum og ríkjum þar sem innkoma almennings er við meðallag. Um helmingur barna innan fimm ára aldurs fær ekki næg vítamín og steinefni. 

Victor Aguayo, yfirmaður næringarverkefnis UNICEF, segir öll þrjú vandamálin, vannæringu, vítamínskort og offitu, finnast í meira mæli í sömu ríkjum. Jafnvel sé þau að finna í sömu hverfum, og oft innan sama heimilis. Þannig geti of þung móðir átt börn sem eru annað hvort vannærð eða glíma við vítamínskort.

Alls búa um 800 milljónir manna í heiminum við stöðugt hungur, á meðan um tveir milljarðar borða of mikið af óhollum mat, sem leiðir til offitufaraldra, hjartasjúkdóma og sykursýki.

Afleiðingar oft ósýnilegar langt fram eftir aldri

Í skýrslunni segir að næring fyrstu þúsund dagana eftir getnað sé grundvöllur fyrir líkamlega og andlega heilsu einstaklings. Þrátt fyrir að mælt sé með brjóstagjöf fá aðeins tvö af hverjum fimm börnum brjóstamjólk fyrstu sex mánuðina. Sala á mjólkurdufti hefur aukist um 40 prósent á heimsvísu á undanförnum árum. Í ríkjum á borð við Brasilíu, Kína og Tyrkland hefur salan aukist um nærri 75 prósent.

Afleiðingar vítamín- og steinefnaskorts barna yngri en fimm ára sjást oft ekki fyrr en síðar á lífsleiðinni. Skorturinn getur leitt til lakara ónæmiskerfis, slæmrar sjónar og skaðað heyrn. Járnskortur getur svo valdið blóðleysi og lækkað greindarvísitölu.

Vöxtur offitu er hins vegar greinilegur. Í skýrslunni segir að vandinn hafi nánast verið óþekktur í fátækari löndum fyrir 30 árum. Nú er minnst eitt af hverjum tíu börnum undir fimm ára aldri annað hvort í yfirvigt eða þjáist af offitu í þriðjungi fátækustu landa heims. Brian Keeley, ritstjóri skýrslunnar, segir að leggja verði sérstaka áherslu á offitu áður en það verður um seinan. Ódýr skyndibiti, sem oft er markaðssettur til barna, gerir vandann enn meiri. Keeley segir börn borða of mikið af einhverju sem þau þurfa ekki, á borð við salt, sykur og fitu.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif

Loftslagsbreytingar hafa haft sín áhrif á uppskeru landbúnaðarvara. Hækkun meðalhita um eina gráðu frá miðri nítjándu öld hefur aukið þurrkatímabil, sem hafa áhrif 80 prósent skemmda á uppskeru. Miðað við mælingar loftslagsvísindamanna er talið að meðalhitastig hækki um tværi til þrjár gráður fram til ársins 2100. Vísindamenn við Harvard komust að því að aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu dragi úr magni nauðsynlegra næringarefna og vítamína nytjaplantna í ræktun, þar á meðal sinki, járni og B vítamíni. Aguayo segir ljóst að áhrif loftslagsbreytinga séu að hafa áhrif á matinn sem heimsbyggðinni býðst. 

Skattar og takmörkun auglýsinga

Í skýrslunni segir að stjórnvöld um víða veröld verði að gera aðgang að heilbrigðu mataræði að forgangsmáli. Öðruvísi sé ekki hægt að taka á vandamálunum. Skattar á mat og drykki með viðbættum sykri, augljósar merkingar framan á vörum, skipulegur markaður með staðgönguvörur fyrir brjóstamjólk og takmörkun auglýsinga og sölu á ruslfæði nærri skólum eru meðal ráðstafana sem lagðar eru til í skýrslunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV