Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þriðji dómurinn fyllti refsirammann

09.10.2015 - 13:41
Frá Landsdómi 2012, málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Dómur sem kveðinn var upp yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í dag er sá þriðji sem hann hlýtur á átta mánuðum. Hann hefur verið dæmdur til að greiða verjanda sínum 128 milljónir í málsvarnarlaun í þessum þremur málum. Refsiramminn er fylltur og refsing því ekki þyngri.

Hæstiréttur dæmdi Hreiðar Má í fimm og hálfs árs fangelsi vegna al Thani-málsins. Sá dómur var kveðinn upp 12. febrúar síðastliðinn. Þar var Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, einnig sakfelldur. Fjórum og hálfum mánuði eftir dómsuppkvaðninguna í Hæstarétti kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm sinn í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þar var Hreiðar Már sakfelldur á ný.

Hreiðar Már fékk sex mánaða dóm fyrir hlut sinn í Marple-málinu vegna þess að hann hafði áður verið dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu. Magnús var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í því máli og fékk því eins og hálfs árs dóm nú. Það er vegna þess að refsiramminn fyrir fjárdráttarbrot er sex ár að hámarki. Í dómnum segir að Hreiðar Már og Magnús hljóti ekki þyngri refsingu nú vegna þess að þá færi það yfir refsihámarkið. Ástæðan er sú að þegar nýr dómur er kveðinn upp bætist hann ekki við þá fyrri, heldur kemur ein refsing fyrir alla dómana.

Þegar markaðsmisnotkunarmálið var til umfjöllunar í Héraðsdómi Reykjavíkur í sumar fór saksóknari þess á leit við dóminn að refsingin yrði þyngri en refsiramminn. Slíkt er heimilt ef um síbrot er að ræða. Dómari í markaðsmisnotkunarmálinu varð ekki við því og dæmdi Hreiðari Má ekki til refsingar.

128 milljónir í málsvarnarlaun

Kostnaðurinn við rekstur efnahagsbrotamála er mikill. Alls hefur Hreiðar Már verið dæmdur til að greiða verjanda sínum 128 milljónir króna í málsvarnarlaun. Þar af eru 33 milljónir vegna al Thani-málsins fyrir héraði og 25 milljónir í Hæstarétti. Hann þurfti að greiða 48 milljónir vegna málsvarnar sinnar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og 22 milljónir í Marple-málinu.

Búið er að áfrýja markaðsmisnotkunarmálinu til Hæstaréttar. Verði Marple-málinu einnig áfrýjað á eftir að bætast við málsvarnarkostnaður vegna þeirra tveggja mála. Það færi hins vegar eftir niðurstöðu málanna í Hæstarétti hver greiðir málsvarnarkostnaðinn. Staðfesti Hæstiréttur sektardómana fellur það í hlut Hreiðars Más að greiða kostnaðinn en verði hann sýknaður kemur greiðslan úr ríkissjóði.

Alvarlegt trúnaðarbrot og engar málsvarnir

Brotin sem Hreiðar Már, Magnús og Skúli voru sakfelldir fyrir fólu í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddu til stórfellds fjártjóns, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun. „Ákærðu eiga sér engar málsbætur," segir orðrétt í dómnum.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá í morgun segir að Hreiðar Már hafi ákveðið að láta Kaupþing kaupa skuldabréf af Marple Holding á nafnverði þegar markaðsverðið hafi verið mun lægra. Því hafi tveggja milljarða hagnaður orðið eftir í félaginu. „Engar lögmætar viðskiptalegar forsendur gátu legið að baki slíkum viðskiptum og átti Kaupþing banki hf. þess ekki kost að endurheimta fjármunina síðar, svo sem verið hefði ef um venjubundin lánsviðskipti hefði verið að ræða. Með því að kaupa bréfin á nafnverði sat eftir óréttmætur hagnaður inni í félaginu Marple Holding S.A. SPF á kostnað Kaupþings banka hf."

Magnús sagði fyrir dómi að hann hefði alfarið tekið ákvörðun um viðskiptin fyrir hönd Marple. Dómurinn segir að hann hafi lagt á ráðin um viðskiptin með Hreiðari Má og gefið undirmönnum sínum skipanir um að flytja fjármuni milli reikninga.