Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þriðja hver fer aftur í ofbeldissamband

05.03.2013 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Konur upplifa sig stundum öruggari í ofbeldissambandi en utan þess segir framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. Mikið annríki var í athvarfinu í fyrra og ein af hverjum þremur konum sneri aftur heim í obeldissambandið. 87 börn dvöldu með mæðrum sínum í Kvennaathvarfinu í fyrra.

Fátítt er að svo mörg börn komi í athvarfið á einu ári. Lengd dvalar varði allt frá einum degi upp í 213 daga. Þriðja hver kona fór aftur heim í óbreytt ástand.

Fleiri konur fara aftur heim í óbreytt ástand

 Átta konur og sex börn dvelja í Kvennaathvarfinu í dag. Um 1-2% kvenna á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka á hverju ári. Í fyrra var mikil aðsókn í athvarfið og mikið annríki. Konur dvöldu þar lengi og langan tíma tók að vinna úr málum þeirra.

Sigþrúður Guðmundsdóttir er framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf: „Við höfðum óvenju mikið af börnum í húsinu og hærra hlutfall en undanfarin ár fór aftur heim í óbreytt ástand sem eru slæmu fréttirnar“, segir hún. Erfitt geti verið fyrir konurnar að slíta ofbeldissambandi. „ Ofbeldið verður oft grófara og hættulegra um það leyti sem verið er að slíta sambandinu og stundum upplifir kona það hreinlega að hún sé öruggari í ofbeldissambandinu en utan þess“, segir Sigþrúður.

Erlendar konur rúmur helmingur dvalargesta

Miðað er við að konur dvelji ekki lengur en fjórar vikur í athvarfinu en Sigþrúður segir að ekki takist alltaf að aflétta neyðinni á þeim tíma. Um helmingur kvennanna er með börn og þær dvelja lengur en hinar. Erlendar konur, sem eru rúmur helmingur dvalargesta, eiga oft ekki í önnur hús að vernda. Leigumarkaðurinn sé þeim til dæmis erfiður. Stundum hafi þær búið lengi við ofbeldi og ekki vitað hvert þær gætu leitað.

Tæp sextíu prósent kvennanna koma vegna líkamlegs ofbeldis. Gerandinn er oftast eiginmaður eða sambýlismaður. Aðspurn hvernig ofbeldi konurnar verði fyrir segir Sigþrúður: „Eiginlega allt sem okkur dettur í hug þegar talað er um líkamlegt ofbeldi, sögur af því heyrum við hér í athvarfinu.“ Fleiri konur segjast hafa hlotið áverka eins og beinbrot, mar, sár eða lausar tennur í sambandinu en þær sem segjast vera að flýja ofbeldi. Börnin sem eru frá nokkurra vikna til sautján ára, hafa sum orðið fyrir ofbeldi sjálf eða orðið vitni að því.

Austurríska leiðin ekki nýst sem skyldi

Sigþrúður segir óskandi að lagaleg úrræði dygðu þegar ofbeldi er beitt á heimili, þannig að brotaþoli búi áfram heima hjá sér en ofbeldismaðurinn fari. Stigið hafi verið skref í þá átt árið 2011 þegar austurríska leiðin var lögfest. „ En hún virðist ekki nýtast eins og vonast var til,“ segir Sigþrúður. Það og fleira þurfi til að uppræta megi heimilisofbeldi.

„Rót vandans er að þessi hópur manna sem á konur hjá okkur lítur ekki á þær sem jafningja sína.“