Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þreytt á að skúra á Landspítalanum

21.11.2014 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Svo fáir vinna við ræstingar á Landspítalanum að dregið hefur úr hreinlæti. Þetta segir pólskur ræstingarstarfsmaður sem vonar að starfskjör fari batnandi.

Efling stéttarfélag hefur sakað ræstingafyrirtækið Hreint ehf. um að brjóta á réttindum pólsks starfsfólks sem ræstir á Landspítalanum. Í bréfi sem formaður Eflingar sendi ræstingafyrirtækinu í vikunni segir meðal annars að árið 2009 hafi 35 manns sem störfuðu við ræstingar á 26 þúsund fermetrum á Landspítalanum verið sagt upp og ræstingar boðnar út. Nú ræsta 12 starfsmenn á vegum Hreint ehf. sama fermetrafjölda.

„Þetta er mjög erfitt starf. Við erum mjög þreytt. Við förum yfir mikið svæði á hverjum degi, þurfum að þrífa mjög mikið og erum mjög þreytt,“ segir Emilia Strzelecka, starfsmaður hjá Hreint ehf. 

Emilia segir að starfsfólkið vinni í tólf daga samfleytt en fái svo tvo daga í frí. Launakjör séu ekki góð. „Þau eru háð því hve mikla yfirvinnu hver og einn vinnur. Almennur taxti er 214 þúsund fyrir skatta.“

Erfitt sé að lifa á þeim launum. „Þetta er mjög erfitt því eins og allir vita er leiguhúsnæði mjög dýrt á Íslandi um þessar mundir. Allt er að hækka í verði. Maturinn er alltaf að verða dýrari. Þannig að ég held að ástandið sé ekki auðvelt, sérstaklega ekki ef menn eru með fjölskyldu.“

Framkvæmdastjóri Hreint hefur sagt að unnið sé að því að taka á málum sem starfsfólkið hefur lýst óánægju með. Ennfremur hafi starfsfólkið fengið bólusetningar sér að kostnaðarlausu. „Okkur er sagt að hreinlæti hafi minnkað vegna þess að við erum mjög fá. Okkur hefur einfaldlega borist þetta til eyrna frá öðrum deildum.“

Emilia segir að starfsfólkið sé hrætt um að missa vinnuna, með því að koma í fjölmiðla. „Í hreinskilni sagt, já. Við erum hrædd.“

Flestir ætli þó að vinna áfram við ræstingar á spítalanum. „Við vonum stöðugt að þetta lagist, að það verði farið að koma betur fram við okkur, að við fáum betri laun og getum lifað hér mannsæmandi lífi.“