Þrettán stungusár á líki Íslendingsins í Torrevieja

15.01.2020 - 20:02
Mynd: Storyblocks / Storyblocks
Íslenskur karlmaður hefur verið ákærður fyrir morð og morðtilraun á Spáni. Þrettán stungusár voru á hinum látna, sem einnig var Íslendingur. Meint morðvopn fannst í bíl hins látna.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudags. Hinn handtekni, fertugur íslenskur karlmaður, er grunaður um að hafa orðið íslenskum sambýlismanni móður sinnar að bana í Los Balcones-hverfinu í Torrevieja. Í fréttatilkynningu sem lögreglan í Alicante sendi frá sér í dag kemur fram að ákæran gegn manninum sé í þremur liðum.

„Fyrir manndráp, fyrir að hafa banað stjúpföður sínum. Það merkir í raun að hann hafi banað honum af ásetningi. Að öllum líkindum. Hann er einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps, fyrir að reyna að ráða móður sinni bana. Þá er hann ákærður fyrir að hafa haft í alvarlegum hótunum við móður sína,“ segir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante.

Blóðug föt og hanskar

Garcia segir að lögregla hafi fundið ummerki sem bendi sterklega til sektar hins ákærða.

„Það fundust föt sem hinn ákærði reyndi að losa sig við þegar hann reyndi að flýja af vettvangi. Blóðug föt, blóðugir hanskar og hnífurinn sem hann notaði til þess að stinga stjúpföður sinn, hann stakk hann 13 sinnum, var falinn undir mottu í bílnum sem hann ætlaði sér að nota til að flýja í,“ segir Garcia.

Hinn látni átti bílinn sem hinn ákærði ætlaði að flýja í. Garcia segir óljóst af hverju hann hætti við það. Lögregla handtók hann þar sem hann reyndi að flýja af vettvangi fótgangandi. Garcia segir að maðurinn hafi áður stolið bíllyklum af heimilinu og falið hnífinn í bílnum.