Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þrettán af 57 búin að setja sér reglur

26.02.2013 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðeins þrettán af 57 skráðum fjölmiðlafyrirtækjum hafa skilað inn reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði til fjölmiðlanefndar. Lögum samkvæmt ber fyrirtækjum skylda til að skila inn slíkum reglum og fjölmiðlastofu að birta þær.

Meðal þess sem kveðið er á um í fjölmiðlalögum er að fjölmiðlafyrirtæki setji sér reglur sem eiga að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Þær reglur á hvert fyrirtæki að móta í samráði við viðkomandi starfsmenn sína og fagfélög þeirra eða samtök. Þar á að kveða á um starfsskilyrði ritstjórna, starfshætti sem ætlað sé að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði og skilyrði áminninga og uppsagna.

Tilgangurinn með reglunum er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ekkert beint eftirlit er með því að reglum sé fylgt eftir, líkt og kom fram í fréttum í síðustu viku, þegar mikið var rætt um fullyrðingar ritstjóra Fréttablaðsins og viðskiptaritstjóra Stöðvar 2 og Vísis um að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði reynt að setja þrýsting á fréttamenn.

Fjölmiðlafyrirtækin sem hafa sent fjölmiðlanefnd reglur sínar um sjálfstæði ritstjórna sem eru birtar á vef nefndarinnar eru: Birtíngur, Bændablaðið, DV, Reykjavík Grapevine fyrir blað og vef, Bæjarins besta, Fréttatíminn, Dagskráin Fréttablað Suðurlands og vefurinn DFS.is, Ríkisútvarpið, Rauðir pennar sem halda úti vefnum Skutull.is, Skessuhorn, Sunnlenska, Víkurfréttir og Vikudagur.