Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þrengja að heimagistingu á Kirkjubæjarklaustri

15.05.2016 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimagisting í þéttbýlinu við Kirkjubæjarklaustur verður ekki leyfð, nema að undangenginni grenndarkynningu. Sveitarstjórn Skaftárhrepps ákvað þettta á fundi sínum á laugardag. 14. maí.

Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnarinnar, verður bannað að leigja íbúðarhúsnæði í flokki II  sem gististað án veitinga. Þá eru settar auknar takmarkanir við heimagistingu  því að fólk leigi íbúðarhúsnæði sitt út til ferðamanna til skamms tíma. Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar, verður heimagisting að hámarki leyfð í 10 gistirýmum. Þá þarf að sýna fram á að næg bílastæði verði við húsið; merkja þarf það rækilega og sýna fram á „að starfsemin muni ekki hafa truflandi áhrif á íbúðabyggð." Loks þarf að fara fram grenndarkynning áður en heimagisting er heimiluð.

Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarfélagsins, segir skort á íbúðarhúsnæði á Kirkjubæjarklaustri.

íbúðarhúsnæði á Kirkjubæjarklaustri er af mjög skornum skammti. Það háir í raun og veru atvinnuuppbyggingu á svæðinu hvað það er lítið íbúðarhúsnæði í boði. Þannig að við ætlum að grípa til þessara ráðstafana, áður en við lendum í vandræðum með íbúðarhúsnæði. Við þurfum að byggja íbúðarhúsnæði. Við megum ekki við að missa það í atvinnusatrfsemi sem er ekki hugsuð á þessum svæðum.

Eva segir að Skaftárhreppur eigi ekkert land þar sem hægt sé að byggja íbúðarhúsnæði og því hafi ekki verið hægt að bjóða upp á byggingarlóðir. Það sé vonandi að leysast. Hún hvetur þá sem vilja fara út í gistirekstur, að byggja á þar til skipulögðum svæðum. 

Fyrr í mánuðinum gerði sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkt sem jafngildir banni við skammtímaleigu íbúða í Vík í Mýrdal og nágrenni.