Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þremur útibókasöfnum komið upp á Akureyri

10.09.2019 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyri.is - Rúv
Þremur útibókasöfnum hefur verið komið upp á Akureyri. Söfnin voru hönnuð og smíðuð af ungmennum í vinnuskóla Akureyrarbæjar. Þau voru svo vígð á Alþjóðadegi læsis sem haldin var hátíðlegur víða um land á mánudaginn.

Fjölbreytt notagildi

Söfnin eru staðsett við Amarohúsið í miðbænum, Lystigarðinum og í íþróttahúsinu Boganum. Þar geta gestir og gangandi fengið bækur til eignar eða láns. Eins er boðið upp á að gefa vel með farnar bækur í skápana og gefa þeim nýtt líf.

 Markmiðið að auka læsi

Í frétt um söfnin á vef Akureyrarbæjar segir að verkefnið geti haft margvísleg,  jákvæð áhrif. 

„Markmiðið er að minna á mikilvægi læsis, auka aðgengi að bókum og hvetja til samveru fjölskyldunnar á útisvæðum bæjarins. Þar að auki stuðlar verkefnið að sjálfbærni og umhverfisvernd þar sem notaðar bækur og endurvinnanlegur efniviður er lagður til grundvallar,“ segir á vef bæjarins. 

Mynd með færslu
Akureyri.is