Þremur flugskeytum skotið á Græna svæðið í Bagdad

05.01.2020 - 21:30
An Iraqi police officer instructs a bulldozer while Iraqi security forces remove cement blocks and opened the streets, that were closed for security concerns, around the Green Zone in Baghdad, Iraq, Thursday, Jan. 2, 2020. Iran-backed militiamen have withdrawn from the U.S. Embassy compound in Baghdad after two days of clashes with U.S. security forces. (AP Photo/Nasser Nasser)
 Mynd: AP
Þremur flugskeytum var skotið inn á Græna svæðið í Bagdad höfuðborg Íraks í kvöld annað kvöldið í röð. Á Græna svæðinu eru stjórnarbyggingar og sendiráð erlendra ríkja og höfnuðu tvö af flugskeytunum skammt frá sendiráði Bandaríkjanna eins og í gær.

Reuters fréttastofan hefur eftir lögreglu að sex hafi særst í árásinni. AFP fréttastofan segir að þriðja flugskeytið hafi hafnað á heimili fyrir utan græna svæðið og þar hafi fjórir særst.  

Írakska þingið kom saman til neyðarfundar í dag. Þar var samþykkt ályktun um að allt erlent herlið hverfi úr landinu og að því verði bannað að nota land, lofthelgi og landhelgi Íraks. Ályktunin er ekki bindandi. 

Samkvæmt samningi milli Bandaríkjanna og Íraks eru fimm þúsund og tvö hundruð bandarískir hermenn í landinu. Ljóst þykir að ályktunin beinist helst að þeim.  

 

Stjórnvöld í Íran ætla ekki lengur að fara eftir þeim takmörkunum sem þeim voru settar í  kjarnorkusamningnum við stórveldin frá árinu 2015. Þetta var tilkynnt eftir ríkisstjórnarfund í kvöld. 

Þetta þýðir meðal annars að  Íranar ætla ekki lengur að takmarka auðgun úrans. Þessi yfirlýsing gæti hellt olíu á eldinn, spenna hefur farið stigvaxandi síðan Bandaríkjaher drap íranska hershöfðingjann Qassem Soleimani í drónaárás á föstudag. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró Bandaríkin út úr sama samningi í maí 2018 en hefur ítrekað hvatt Íran til þess að fara eftir honum.
 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi