Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrætt um leikaraval vegna gagnkynhneigðar

epa03974598 British comedian Jack Whitehall arrives at the annual British Fashion Awards held at the Coliseum Theatre in Central London, Britain, 02 December 2013. The British Fashion Awards recognise the most influential people in fashion today and
 Mynd: EPA

Þrætt um leikaraval vegna gagnkynhneigðar

15.08.2018 - 13:03

Höfundar

Enski grínistinn Jack Whitehall hefur hreppt hlutverk fyrstu opinberlega samkynhneigðu aðalpersónunnar í sögu Disney. Persónan birtist í kvikmyndinni Jungle Cruise. Nú hefur framleiðandinn sætt gagnrýni fyrir að ráða gagnkynhneigðan leikara til að túlka samkynhneigða aðalpersónu.

Hinn þrítugi Jack Whitehall hefur notið velgengni í bransanum sem uppistandari, þáttastjórnandi, leikari og handritshöfundur. Hann er þekktastur fyrir hluverk sitt í sjónvarpsþáttunum Fresh Meat og Bad Education. Þá hefur hann átt fast sæti í leikjaþáttunum A league of their own auk þess að leika í Netflix-heimildarþáttunum Jack Whitehall: Travels with my father.

„Samkynhneigð á ekki að vera niðurlag í brandara“

Ákvörðun Disney hefur sætt nokkurri gagnrýni á samfélagsmiðlum en þó nokkrir hafa spurt hvers vegna ekki var valinn samkynhneigður leikari í hlutverkið. Þá hafa aðrir bent á að það sé ekki hægt að ætlast til þess að samkynhneigðir leikarar séu eingöngu ráðnir til að leika hlutverk samkynhneigðra persóna og kynhneigð eigi ekki að koma starfi leikarans við. Að auki valdi flokkun af því tagi því að samkynhneigðir leikarar sitji eingöngu uppi með hlutverk samkynhneigðra persóna.

Óstaðfestar fregnir herma að persónan sem Whitehall túlkar sé mikill nautnaseggur, mjög „camp“ og fyndinn. Þá líta sumir gagnrýnendur svo á að með því að fá gagnkynhneigðan leikara til að túlka slíka persónu sé verið að ýta undir staðalmyndir. Og einn ritar: „To be queer is not a punchline,“ eða „að vera hinsegin á ekki að vera niðurlag í brandara.“ 

Þetta er ekki fyrsta opinberlega samkynhneigða persónan í Disney-framleiðslu ef aukapersónur teljast með. Í leiknu útgáfunni af Fríðu og dýrinu sem kom út í fyrra var opinberlega samkynhneigð persóna, Le Fau, aðstoðarmaður illmennisins Gastons.

Sambærilegt máli Scarlett Johansson?

Þá benti einn notandi á Twitter á fyrst að Scarlett Johansson sá sig tilneydda til að afþakka hlutverk trans karlmanns [innsk. blm: í kvikmyndinni Rub & Tug, og baðst allt að því opinberlega afsökunar á því að hafa íhugað að taka hlutverkið að sér og sagðist hafa „lært mikið“,] þá ætti Whitehall ekki að fá að túlka samkynhneigðan mann. Og þá sér í lagi ef tekið er tillit til þess að það eru hundruð samkynhneigðra leikara í Hollywood sem eru betri leikarar en hann.

Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Johansson lendir í sambærilegu en þegar hún túlkaði aðalpersónuna í leiknu kvikmyndinni Ghost in the Shell (2017), sem byggist á japanskri manga-sögu, voru margir ósáttir við að hvít kona af evrópskum uppruna hefði verið ráðin í hlutverkið. Fram að því hafði persónan verið af asískum uppruna.

epa05852078 US actress/cast member Scarlett Johansson poses during the red carpet event for the world premiere of the movie 'Ghost in the Shell' in Tokyo, Japan, 16 March 2017. The movie based on a Japanese manga will be screened across the
 Mynd: EPA
Scarlett Johansson á frumsýningu Ghost in the Shell

Helsta gagnrýnin var á þá leið að þar væri um að ræða „white-washing“ eða hvítþvott. Það er: mörgum þykir óásættanlegt að leikarar hverra uppruni á sér sterka og sýnilega málsvara í samtímamenningu eða ráðandi stöðu í samfélaginu taki að sér hlutverk persóna sem tilheyra minnihlutahópum eða hópum sem eru lítt sýnilegir.

Má þannig ætla að slík framsetning sé einnig kjarninn í þeirri gagnrýni sem beinist að ákvörðun Disney í máli Jungle Cruise.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Leikararar Guardians standa vörð um Gunn

Kvikmyndir

Carrie Fisher meðal leikenda í Star Wars IX

Kvikmyndir

Rekinn vegna tíu ára ummæla á Twitter

Menningarefni

Hættir í Disney eftir hálfs árs hlé